149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Í samgöngum innihalda orkuskiptin meira en raforku á hlaðanlega rafgeyma, þau snúast líka um innlent eldsneyti. Rafvélar sem ganga fyrir vetni, brunavélar sem nota metan, metanól eða lífdísil. Ég ætla að nota tækifærið og vekja athygli á 43 blaðsíðna skýrslu frá orkumálaráðherra sem fjallar nákvæmlega um innlenda eldsneytisframleiðslu, vegna þess að það er mjög mikilvægt að við tökum líka tillit til hennar því að hún leiðir til minni innflutnings á jarðefnaeldsneyti og minni losun kolefnisgasa við bruna í vélum.

Herra forseti. Ég ætla að minnast á annað, loftslagsbreytingar. Þær kalla á aðlögun samfélaga og alls konar mótvægisaðgerðir sem svör við afleiðingum hennar. Ég tel að ríkisvaldið, sveitarfélög, helstu sérfræðistofnanir framkvæmda og eftirlits, Siglingastofnun, Samgöngustofa, Vegagerðin, Mannvirkjastofnun, Almannavarnir og þekkingar- og hagsmunasamtök eigi að mynda þverfaglegan samráðshóp með aðstöðu og starfsfólki. Hann ynni náið með nýja loftslagsráðinu og sérfræðistofnunum þess, sem er t.d. Veðurstofan.

Hlutverk hópsins væri að safna upplýsingum um leiðir til aðlögunar og mótvægis, hafa yfirsýn og aðhald með verkefnum og fræða sem flesta um stöðu og leiðir í aðlögun að loftslagsbreytingum.

Slíkur hópur eða ráð er vænni kostur að mínu mati en að fela loftslagsráði þetta hlutverk einu saman, ásamt öllu öðru sem að starfsemi þess lýtur. Sem sé annars vegar að hafa öflugan hóp sem vinnur gegn loftslagsbreytingum, stýrir því starfi, og svo aftur annan hóp sem stýrir aðlögun að loftslagsbreytingum. Auðvitað vinna þeir náið saman, en verkefnin eru býsna ólík. Þá koma ólíkir aðilar að þeim, sérstaklega á sviði framkvæmda, hvort það er hjá sveitarfélögum eða ríki, og ég nefndi þarna nokkrar stofnanir því til sönnunar.