149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[14:43]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir ræðuna og vil þakka henni fyrir samstarfið í hv. velferðarnefnd við vinnu heilbrigðisstefnunnar. Ég held að það sé engum leyndarmálum uppljóstrað að þingmaðurinn hafi lagt þar margt gott til og haft áhrif á margt í stefnunni.

Ég er hins vegar ekki alveg sammála öllu því sem kemur fram í minnihlutaáliti þingmannsins, sem vonlegt er, ég skrifa undir meirihlutaálitið. Mig langar kannski sérstaklega í fyrra andsvari að spyrja hv. þingmann út í þetta með Sjúkrahúsið á Akureyri. Fyrir nefndinni kom fram að venjulega væri gert ráð fyrir því, alla vega í stóru löndunum sem svo eru stundum kölluð, að sjúklingargrunnurinn sem þyrfti að vera á bak við háskólasjúkrahús hlypi á milljónum manna. Það væri nú tæplega einn staður á Íslandi, hvað þá meir, sem stæði undir þeim fjöldamælingum.

Mig langar að spyrja: Er það ekki í raun þannig að væntingar manna til að Sjúkrahúsið á Akureyri verði skilgreint sem háskólasjúkrahús sérstaklega, ósk um að það verði miklu fleiri á Stór-Akureyrarsvæðinu? Af því að staðan eins og hún er í dag er í rauninni þannig að hvorki búa nægilega margir þar né heldur eru starfræktar nægilega margar sérgreinar þar til að spítalinn geti almennilega flokkast sem háskólasjúkrahús.