149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Þegar við ræðum svo mikilvæga stefnumörkun í svo mikilvægum málaflokki er mikilvægast, þegar svona stefna er unnin, að leitað sé til sérfræðinga. Nú vill svo vel til að hv. þingmaður er læknisfræðimenntaður og gott að eiga orðastað við hann um þetta.

Nú hefur sú stefna sem hér er lögð fram fengið nokkuð harkalega gagnrýni hjá formanni Læknafélags Reykjavíkur og reyndar einnig formanni Læknafélags Íslands. Gagnrýni hefur borist úr fleiri áttum. Geðhjálp hefur gagnrýnt samráðsleysi. Einnig gætir gagnrýni í umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Ef ég vitna aðeins í formann Læknafélags Reykjavíkur — hann skrifar pistil í Læknablaðinu sem hann kallar Heilbrigðisstefna í öngstræti. Hann gagnrýnir þessa stefnu heilbrigðisráðherra og stjórnvalda harðlega og segir að veikleiki stefnunnar sé fyrst og fremst í því hversu mikið vanti umfjöllun um hin ýmsu heilbrigðismál. Það er töluvert alvarleg gagnrýni. Hann tekur þarna fjölda dæma, þar á meðal segir hann að ekkert sé fjallað um öldrunarþjónustu, hjúkrunarheimili og geðheilbrigðismál. Jafnframt vanti að mestu umfjöllun um vaxandi og mikilvægan hluta heilbrigðiskerfisins sem sé heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa. Hann tiltekur fleira. Hann segir að lokum stefnuna vera ónothæfa því að alla heildarsýn vanti. Þetta er býsna hörð gagnrýni, herra forseti, og gott væri að heyra viðbrögð frá hv. þingmanni hvað þetta varðar.