149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:20]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þarna tókst hv. þingmanni að koma býsna mörgum spurningum fyrir í knöppu máli. Auðvitað áttar þingmaðurinn sig á því að ég get ekki svarað þeim öllum ítarlega. Bara svo að það sé sagt er ég auðvitað sammála þingmanninum um að geðheilbrigðismál séu ekki neitt smámál. Enda er nú unnið eftir sérstakri geðheilbrigðisáætlun og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur einmitt lagt sérstaka áherslu á geðheilbrigðismál í starfi sínu. Ég nefndi nokkur atriði þar um í ræðu minni áðan. Við fjöllum ekki heldur sérstaklega um hjartasjúkdóma. Við fjöllum ekki sérstaklega um lungnasjúkdóma o.s.frv. Þannig að það er í raun ekki neinn tiltekinn sjúkdómaflokkur tekinn út fyrir sviga.

Hvað varðar athugasemdir landlæknis um fjarheilbrigðisþjónustu o.fl. þá nefndi ég það einmitt, og við í meiri hlutanum tökum það einmitt sérstaklega fram í áliti okkar, að mjög mikilvægt sé að tryggja þjónustu út á land og að hún verði ekki eingöngu leyst með fjarheilbrigðisþjónustu. Það hefur algerlega verið tekið fram. Hins vegar er hún mikilvægur þáttur eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, og kannski sérstaklega hvað varðar eftirfylgni.

Ég er viss um að hv. þingmanni er kunnugt um að í gangi eru nokkur verkefni þar sem verið er að nota fjarheilbrigðisþjónustu, meira að segja til að skoða sjúklinga, þ.e. heilbrigðisstarfsmaður á vettvangi skoðar sjúkling og þiggur síðan ráðleggingar frá sérfræðingi eða öðrum heilbrigðisstarfsmanni annars staðar á landinu. Þetta er algerlega virka.

Ég er sammála þingmanninum um að auðvitað er þetta ekki upphaf og endir alls en þetta getur skipt miklu máli. Hvað varðar samráðið þá sátu allir við sama borð í því. Menn höfðu tækifæri til að koma á heilbrigðisþing og leggja þær fram sín sjónarmið. Menn höfðu tækifæri til að leggja inn umsagnir á samráðsgáttina. Þannig að ég held að ekki sé hægt að taka eitthvert eitt tiltekið félag út fyrir sviga og segja: Þessi fékk ekki að koma að samráði frekar en annar.