149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:09]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og áhuga hans á bráðaþjónustu utan spítala eða sjúkraflutningum. Ég get tekið undir það að ég vil að sem oftast sé minnst á sjúkraflutninga alls staðar. Það má kannski lesa það í þessu áliti frá hv. velferðarnefnd. Það er ekki komið inn á alla þá þætti innan heilbrigðiskerfisins sem hægt er að fjalla um. Heilbrigðiskerfið er stórt og veitir fjölbreytta þjónustu en bráðaþjónusta utan spítala fær töluvert pláss í nefndarálitinu.

Þá vil ég nefna það sem ég kom inn á í ræðu minni áðan. Hér erum við með stefnuna. Stefnan er að tryggja aðgengi og sem besta þjónustu um allt land. Það er stefnan. Við þurfum að gera allt til þess að hægt sé að veita örugga þjónustu á sem hagkvæmastan hátt um allt land o.s.frv. Það er stefnan. Svo kemur framkvæmdaáætlunin. Þá kemur náttúrlega strax í ljós að þyrla er akkúrat málið. Það er þyrla sem mun vera númer eitt í framkvæmdaáætluninni. Ef hún er rétt unnin er ég sannfærður um að hún verður þar efst á blaði til þess að tryggja að þjónustan sé sem aðgengilegust, öruggust, hagkvæmust og sem best. Ég hef fulla trú á því.

Ég tel að svona sérlausnir til þess að ná markmiðunum eigi ekki heima inni í stefnunni. Þær eiga heima í framkvæmdaáætluninni. En út af áhuga okkar á þessu málefni í velferðarnefnd þá lögðum við fram þingsályktunartillögu til að knýja á um að þessi framkvæmdaáætlun í bráðaþjónustu utan spítala verði framkvæmd og hún hefur verið samþykkt frá Alþingi.