150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina og ætla að vinda mér í spurningarnar enda lítill tími. Fyrst vil ég spyrja út í það skilyrði að fyrirtæki greiði ekki eigendum eða æðstu stjórnendum mánaðarlaun sem nemi hærri fjárhæð en 3 milljónum til hvers og eins. Er um að ræða laun eingöngu eða laun og hlunnindi? Hvað með kaupauka, hvað með dagpeninga og hvers konar eftirlit er með þessu öllu saman?

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í eftirlit sem Vinnumálastofnun hefur, sem er jú eftir á. Það kann að vera að það hafi verið nauðsynlegt fyrir fyrirtæki að setja fólk í hlutastarf um tíma en svo sjái fyrirtækið eftir einhvern tíma að það sé ekki lengur þarft. Ef hagur vænkast svo næstu þrjú árin hjá fyrirtækinu að það getur mögulega borgað inn á lán eða annað, finnst hæstv. ráðherra ekki kannski fullmikið í lagt að ætla að krefja (Forseti hringir.) það fyrirtæki um 15% álag á endurkröfum þegar svo háttar til?