150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:12]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi hvort við höfum tölur yfir þá sem hafa verið að misnota leiðina: Nei, auðvitað hafa sum fyrirtæki verið að greiða til baka á undanförnum dögum. Þetta gerist hratt, þetta eru lög sem voru samþykkt hér 20. mars sl., þannig að þau eru nú ekki ýkja gömul. Það sem mun gerast í framhaldinu er að Vinnumálastofnun mun senda út bréf til fyrirtækja, hún er að undirbúa það núna, og kalla eftir rekstrarupplýsingum og nýta heimildir sem hún hefur. Verið að skerpa á því í þessu frumvarpi, bæði heimildum þeirra og þeim skilyrðum sem stofnunin vinnur eftir, gera þau hnitmiðaðri og tölusettari.

Varðandi lista yfir fyrirtækin: Já, ég hef verið nokkuð skýr í samtölum mínum við forstjóra Vinnumálastofnunar en það er auðvitað Vinnumálastofnun sem heldur á þessum lista og ég veit ekki annað en að hún sé að vinna í að undirbúa einhvers konar birtingu á honum, hún hefur verið að kalla eftir því út úr tölvukerfum sínum. Eins og ég skil það er það ekki þannig að menn geti bara ýtt á prentun og þá prentist listinn út, heldur sé verið að búa listann til, þ.e. verið að framkalla hann úr tölvukerfunum sem notast er við.