150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Nú erum við komin með framlengingu hlutabótaleiðar, sérlega spennandi verkefni sem hv. velferðarnefnd fær að vinna í næstu tvær vikur. Um er að ræða nokkurs konar bútasaum, enda hefur ýmislegt gengið á síðan fyrsta frumvarpið var samþykkt í mars sl. Það var fyrsta Covid-málið sem kom hingað í þingið og unnið í miklum flýti, bæði í ráðuneyti og í þinginu, þannig að við blasti að það myndi þurfa að bregðast einhvern veginn við þeim agnúum sem stóðu út af. Það er margt gott í þessu frumvarpi, sumt beinlínis nauðsynlegt, annað ansi óljóst. Endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar á hendur þeim sem sækja vísvitandi í sameiginlega sjóði okkar án þess að þörf krefji er algjörlega nauðsynleg og hefði farið betur ef stjórnarliðar hefðu samþykkt slíkt úrræði í síðustu viku, af því að þá væri það orðin virk heimild. En ekki skal gráta Björn bónda, ég ætla ekki að standa hér og grenja yfir því heldur greiða leið þessarar endurkröfuheimildar.

Hins vegar er það úrræði ansi vítt sem sett er í þetta frumvarp. Ef starfsmenn í einhverju fyrirtæki hafa nýtt hlutabótaleið að hluta til í einhvern tíma, allt frá einum degi upp í þrjá mánuði, á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst, og starfsemi fyrirtækisins kann að breytast á næstu þremur árum og hagur þess vænkast — sem við skulum nú vona að gerist, við skulum vona að hér verði allt komið í blússandi siglingu seinni hluta þessa árs, alla vega löngu fyrir 31. maí 2023 — þá má það fyrirtæki í rauninni lítið gera, ætli fyrirtækið ekki að verða fyrir refsingu af hálfu hins opinbera. Þetta er mjög íþyngjandi ákvæði og ég tel algjörlega að við verðum að skoða það af því að um er að ræða langt tímabil. Mér finnst mjög eðlilegt að fyrirtæki greiði til baka. Það er fullkomlega eðlilegt að farið sé með þetta á einhvern hátt eins og lán. Það er í góðu lagi. Ef fyrirtæki þarf ekki á þessu að halda, ef hagurinn vænkast svo mikið að það getur bjargað sér einhvern tímann á næstu þremur árum, er eðlilegt að gera einhverja kröfu á það. En það er ekki gott að ætla að fara að leggja 15% álag á fyrirtæki fyrir hafa nýtt sér nauðsynlegt úrræði, af því að fjöldi fyrirtækja hefur orðið fyrir mjög miklu áfalli. Við skulum alveg hafa það á hreinu að fyrirtækið þarf að sýna fram á talsverðan samdrátt til að geta nýtt úrræðið, við verðum að gefa því fyrirtæki tækifæri til að vaxa og dafna og nýta sér lögleg úrræði. Það er ekkert ólöglegt við það að greiða út arð. Það er ekkert ólöglegt að borga út einhverja hluti. Það er svo margt þarna sem er í fullu samræmi við lög. Það er ekki ólöglegt að greiða út kaupauka. Ef fyrirtæki hefur fengið umtalsverðan ríkisstuðning er fullkomlega eðlilegt að sama fyrirtæki greiði sér ekki á sama tíma út arð eða greiði himinhá laun. En í þessu frumvarpi finnst mér við vera að taka svörtu sauðina og yfirfæra þá á öll þau fyrirtæki sem eru mjög skynsamlega og vel rekin. Við ætlum að búa til einhvers konar letjandi áhrif, letjandi lagasetningu. Það held ég að sé ekki tilgangur okkar eða hlutverk hér. Fyrirtæki þurfa að uppfylla skilyrði, að reksturinn hafi dregist saman um a.m.k. 25%, en svo kemur það til samanburðar við eitt af eftirtöldum tímabilum: Samanburður við sama tímabil ársins 2019; að reksturinn hafi dregist saman um 25% að meðaltali á tímabilinu frá 1. mars til nútímans, frá því sem hann var í blússandi bransa síðasta sumar, þ.e. frá 1. júní 2019 til 31. ágúst 2019; 25% samdráttur frá 1. desember 2019 til loka febrúar; eða meðaltal mánaðartekna frá 1. mars 2019 til 29. febrúar 2020. Það er eiginlega ómögulegt að finna ekki einhverja daga á þessu tímabili þar sem ekki er einhver samdráttur, sé maður í einhverju af þeim fyrirtækjum og þeim rekstri sem verða fyrir einhverjum áhrifum núna af faraldrinum.

Það er mjög jákvætt að tekið sé í frumvarpinu tillit til þeirra sem eru í fæðingarorlofi. Við höfum fengið yfir okkur urmul af tölvupóstum og ábendingum um að það sé mjög óréttlátt að miða við tekjur í fæðingarorlofi, sem algengt er í dag. Fólk teygir meira að segja fæðingarorlof yfir lengri tímabil og fær þá enn þá lægri mánaðarlegar greiðslur. En eftir þetta er hægt að miða við þær tekjur sem Fæðingarorlofssjóður miðaði fæðingarorlofsgreiðslur við, þannig að það er mjög jákvætt að það sé tekið inn.

Ég hef nokkrar áhyggjur af skilningi stjórnarmeirihlutans á því hvað það þýðir að vera með eignir í skattaskjólum. Ég held að einhverjir viti mögulega ekki betur, en ég held samt að mörg okkar hér inni viti betur. Það finnst mér eiginlega verra af því að það er kjánalegt að halda því fram að fyrirtæki geti ekki átt eignir í skattaskjólum ef fyrirtæki er með ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Það eru eiginlega kjánalegt að halda því fram af því að til þess að geta verið í miklum rekstri hér á landi, verið hér með fólk á launaskrá og talist eiga eignir í skattaskjólum þurfi sá að vera með ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, af því að gerð er sú krafa að hann sé hér, sé með innlent fyrirtæki. Að hafa staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi er engin vörn heldur af því að þeir sem vilja leyna eignum sínum í skattaskjólum opinbera ekki eignir sínar sem þeir vilja halda leyndum fyrir skattyfirvöldum á Íslandi. Það liggur alveg í hlutarins eðli. CFC-skýrslum er skilað til ríkisskattstjóra um að viðkomandi félag eigi eignir á lágskattasvæði og borgi af því skatta hér á landi. Þeir sem geyma hins vegar eignir sínar í skattaskjólum reyna að komast hjá því að borga skatta hér á landi þannig að það hljóta allir að sjá að það er einhver misskilningur í gangi hvað þetta varðar. Þetta er engin vörn. Ég held að við hljótum að verða að kalla til okkar allra færasta fólk, viljum við á annað borð koma í veg fyrir að fyrirtæki njóti stuðnings sem komast hjá því að greiða til samneyslunnar, sem komast hjá því að taka þátt í öllum þeim björgunaraðgerðum sem við erum í núna. Ef við viljum að þau fyrirtæki sem ekki ætla að taka þátt í þeim fái samt að njóta stuðnings okkar þá skulum við endilega hafa þetta svona.

Ég hef þrátt fyrir þetta allt saman áhyggjur af sjálfstætt starfandi einstaklingum og námsmönnum. Þegar við fjölluðum um fyrra málið, sem við erum aðeins að laga núna, var okkur mjög umhugað um að grípa sjálfstætt starfandi einstaklinga og koma þeim líka inn á hlutabótaleiðina, af því að það eru allir sammála um að fólk fær meiri réttindi af því að vera á hlutabótum en ef það fer inn í almenna kerfið. Það er aukinn réttur. Það eru hærri fjárhæðir í hlutabótaleiðinni af því að þetta er tímabundið úrræði. Það var sérstaklega ákveðið að hafa það þannig af því að við litum á þetta sem mjög tímabundið úrræði. Við vildum að sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem eru mögulega með tekjur úr ýmsum áttum, gætu nýtt sér það úrræði.

Við getum séð fyrir okkur tæknimann, hljóðmann, sem er í 75% starfi við að annast tónleikahald, ráðstefnuhald, fundi og þess háttar en starfar 25% hjá Ríkisútvarpinu eða einhverju öðru fyrirtæki sem tæknimaður. Þessi einstaklingur er búinn að missa 75% af sínu, heldur 25%, þannig að viðkomandi uppfyllir öll skilyrði hlutabótaleiðar. Hins vegar hefur það orðið þannig að Vinnumálastofnun hefur ákveðið að afgreiða alla sjálfstætt starfandi á þá leið að setja þá inn í almenna kerfið. Það var bara einhver framkvæmd þrátt fyrir að löggjafinn hefði viljað setja sjálfstætt starfandi einstaklinga í nákvæmlega sömu stöðu og launamenn varðandi hlutabótaleiðina. Ég átta mig ekki á því hvers vegna þetta gerðist þannig, af því að það sem gerist líka er að námsmenn sem eru sjálfstætt starfandi detta út. Aldursmörkin sem við vildum passa upp á detta út, þ.e. við vildum tryggja að þeir sem væru undir 18 ár og yfir 70 ára gætu nýtt sér þetta tímabundna úrræði — ég endurtek: þetta tímabundna úrræði — en þeir detta líka út hafi þeir verið sjálfstætt starfandi. Leikari í Borgarleikhúsinu sem var verkefnaráðinn í eina sýningu getur ekki farið í þetta úrræði þetta af því að hann er yfir 70 ára aldri. Hann getur auðvitað ekki farið á atvinnuleysisbætur heldur. Hann getur hvorki nýtt sér hlutabótaleiðina né atvinnuleysisbótaleiðina. Það eru agnúar sem ég held að við verðum að laga.

Að lokum vil ég enn einu sinni árétta að við verðum að grípa námsmenn. Námsmenn sem framfleyta sér með vinnu með námi eru margir hverjir búnir að vera atvinnulausir frá því í mars. Námsmenn eru alls konar fólk, bæði fjölskyldufólk og ekki. Margir hverjir eiga ekki rétt á námslánum, geta ekki sótt um námslán á miðri önn, eiga ekki í djúpa vasa foreldra sinna að sækja og eiga engan rétt annan en að leita á náðir sveitarfélaga með þá agnarlitlu framfærslu sem þar er að finna. Þær bætur sem koma frá sveitarfélögum duga ekki til reksturs heimilis og fjölskyldu, bara alls ekki. Þegar við tökum ákvörðun á Alþingi um að útiloka þann hóp sem missti vinnuna í mars eða lauk námi sínu í byrjun maí erum við að taka ákvörðun um að útiloka ákveðinn hóp frá því að geta framfleytt fjölskyldunni sinni. Það þykir mér miður.