150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna þegar mælt er fyrir þessu fína frumvarpi sem framlengir svokallaða hlutabótaleið sem hefur heilt yfir tekist mjög vel. Vissulega var unnið mjög hratt að því að koma henni í gagnið í mars og var hún lögfest 20. mars sl. og hefur gagnast fjölda launafólks í landinu til að hafa möguleika á að halda ráðningarsambandi við fyrirtæki sitt, sem skiptir auðvitað mjög miklu máli. Hún gerir það að verkum að þegar þessir erfiðleikar ganga yfir í þjóðfélaginu hjá viðkomandi fyrirtækjum eru meiri líkur til þess að viðkomandi haldi vinnu áfram og verði ekki sagt upp en ef viðkomandi hefði strax verið sagt upp og engin vissa hefði verið fyrir því að hann fengi vinnu hjá sínum fyrri vinnuveitanda aftur eða yfir höfuð að hann fengi vinnu.

Nú er verið að fara yfir það sem talið er að skilyrða hefði mátt betur, miðað við fengna reynslu, varðandi það að fara í þetta úrræði. Það er líka mjög gott. Það er ekki hægt að sjá alla hluti fyrir við þessar aðstæður. Ég tel að það sé mjög gott að í nýjustu umferð hlutabótaleiðarinnar sé horft til þess að trappa úrræðið niður að ákveðnu marki varðandi það hlutfall sem launamaður fær greitt frá atvinnurekanda sínum og Atvinnuleysistryggingasjóði, í 50% eftir 30. júní, út þessa tvo mánuði fram til 31. ágúst, og eins það að skilyrða úrræðið enn frekar gagnvart þeim fyrirtækjum sem ætla sér að nýta það með launafólki sínu.

Tíundað er í greinargerð með frumvarpinu hvaða skilyrði það eru. Það hefur verið mikið rætt nú og áður að verið sé að hygla fyrirtækjum sem hafa fé sitt í skattaskjóli. Ekki hefur fengist nægilega góð skilgreining á því hvað skattaskjól eru nákvæmlega. Eru það lágskattasvæði eða eru skattaskjól þar sem menn ætla sér ekki að standa skil á sköttum til viðkomandi lands þar sem þeir reka fyrirtæki sín og þar sem þau hafa lögfestu? Það hefur verið skýrt að það sé ekkert ólöglegt við það, hvorki gagnvart einstaklingum né fyrirtækjum, að eiga fé í fjármálastofnun erlendis ef viðkomandi gefur það upp til skatts á Íslandi og greiðir það sem honum ber. Þá er ekkert ólöglegt við það. En þau skilyrði sem sett eru af hálfu ríkisins og Vinnumálastofnun framfylgir finnast mér vera alveg kýrskýr, þ.e. að fyrirtæki sem ekki geta sýnt fram á CFC-skýrslu, að standa skil á sköttum til ríkisins gagnvart íslenskum lögum, hafa engan aðgang að þessum úrræðum. Það er ekki flóknara en það. Þau fyrirtæki sem eru með svarta samvisku og reyna að komast hjá því að greiða skatta til ríkisins hafa þá ekki neina möguleika á að nýta sér þetta úrræði.

Vinnumálastofnun mun kalla eftir gögnum um eignarhald og fyrirtækin verða að hafa staðið skil á skýrslu um eignarhald á CFC-félagi og skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum síðastliðin þrjú ár eftir því sem við á. Mér finnst það vera eins skýrt og hægt er að hafa þetta og fer fram á að ekki verði látið að því liggja að verið sé að bjóða upp á fé úr krana úr almannasjóðum til stuðnings fyrirtækjum og launþegum í þessu sambandi, það er bara ekki í boði. Ég tel því gott að fá enn frekari staðfestingu á því í nefndinni frá til þess bærum aðilum, bæði frá ríkisskattstjóra og fjármálaráðuneytinu, að ef þarna er eitthvað óljóst eða ef setja þarf undir einhvern leka í því sambandi þá liggi viljinn skýr fyrir hjá ríkisstjórninni og viðkomandi ráðherra og okkur öllum, held ég. Þá fáum við það fram ef herða þarf skilyrðin eða skýra með enn frekari hætti. Einnig hefur verið talað um 15% álag ef fyrirtæki misnota þetta úrræði með einhverjum hætti. Mig minnir að einnig hafi verið talað um álag í frumvarpinu sem formaður velferðarnefndar hafði til kynningar í velferðarnefnd af sinni hálfu á dögunum. Formaður leiðréttir mig ef það var ekki líka lagt til að álag yrði sett á endurgreiðslur ef fyrirtæki misnotuðu þetta úrræði. Hér er verið að tala um þetta álag og mér finnst það mjög nauðsynlegt og gott.

Við erum að fara í sjóði skattgreiðenda, almannafé, og það er sjálfsagður hlutur að ef einhver misnotkun kemur í ljós á úrræðinu verði viðkomandi fyrirtæki að bera ábyrgð á því að hafa misnotað það og greiða það til baka með álagi. Menn hafa spurt sig hvort þrjú ár séu of langur tími. Það má alltaf deila um hvar puttinn er settur niður í þeim efnum. En verið er að ívilna fyrirtækjum og hjálpa þeim við að komast í gegnum þessar þrengingar og er ekkert óeðlilegt við að fyrirtækin þurfi líka að horfa til þess varðandi arðgreiðslur í framhaldinu, hvort sem það eru þrjú ár eða tvö eða fjögur ár. Ég trúi því ekki að flokkar eins og Samfylkingin séu á móti því að skilyrða slíka hluti. Ég hefði frekar haldið að það væri á hinn veginn. En stundum snýst allt á hvolf í umræðunni og maður veit ekki hvað snýr upp og hvað snýr niður.

Ég held að við séum með þetta mál á hárréttum tíma. Við vissum að það þyrfti að endurskoða það miðað við hvernig hlutirnir þróuðust, hvort atvinnulífið væri að taka við sér aftur, hversu snemma það gerðist og hvernig allt liti út í ljósi Covid-19 á Íslandi. Miðað við að við séum að fara með frekar jákvæðum hætti út úr þessu ástandi tel ég að frumvarpið leiði okkur í gegnum næstu þrjá mánuði. Það veit enginn hvað við þurfum hugsanlega að gera eftir einn eða tvo mánuði. Það getur enginn svarað því. Eflaust getum við eftir tvo mánuði séð að eitthvað í því hefði hugsanlega mátt gera öðruvísi. En mér finnst aðalmálið vera að menn miði við þær upplýsingar sem liggja fyrir hverju sinni í þessu ástandi og að reynt sé að gera það besta miðað við þær staðreyndir og upplýsingar sem liggja fyrir. Að við vinnum okkur út úr þessu saman með fyrirtækjum og launamönnum og hinu opinbera. Þá mætum við þessu ástandi með réttum ákvörðunum og sækjum fram, það er sókn og hugur í okkur að komast sem best út úr þessu efnahagslega áfalli og heilbrigðisáfalli.

Ég veit að það getur örugglega enginn hv. þingmaður spáð fyrir um hvort gera hefði mátt eitthvað betur eða öðruvísi í því ástandi sem nú er. En allir eru að reyna að vinna heiðarlega og gera sitt besta við þessar aðstæður.