150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vildi óska þess að Samfylkingin gæti komið með tillögu hér á Alþingi um hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að fyrirtæki sem hafa einbeittan brotavilja fari með fé sitt í skattaskjól, að hægt væri að ná utan um það með lögum. Þau fyrirtæki sem hafa einbeittan brotavilja í þessum efnum eru undir yfirborðinu og það er verið að reyna eftir öllum leiðum, hjá ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra að ná til þeirra. Hvernig eigum við að fá þessi fyrirtæki og starfsemi þeirra upp á yfirborðið? Ef við vissum það hefðum við líklega náð utan um fleiri slík fyrirtæki en okkur hefur tekist. Okkur hefur samt tekist að ná utan um þó nokkur fyrirtæki og fá fé til baka. En þetta er því miður ljóður á starfsemi fyrirtækja, hvort sem er hér á Íslandi eða í öðrum löndum. Það er alþjóðlegt vandamál að fyrirtæki fari með fé sitt inn í svokölluð skattaskjól og ætli sér aldrei að greiða neitt til samfélaganna. Við þekkjum það, ég og hv. þingmaður, að alþjóðasamfélagið er að reyna að glíma við þennan veruleika og koma í veg fyrir þetta með samstarfi milli þjóða og menn gera hvað þeir geta. Ég skil það þannig að ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri hafi komið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og einmitt sagt að þetta mál héldi vel en það væru auðvitað teorískir möguleikar fyrir hendi. Eru þeir ekki alltaf í öllu? Mér finnst mjög einkennilegt ef það á að reyna að sverta þetta mál í ljósi þess að verið sé að greiða aðgang fyrirtækja í skattaskjólum til að komast í þetta úrræði. Það er bara fráleitt.