151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[16:10]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Ég kem hingað upp í aðra ræðu til að ræða um fjármál ríkisins. Ég hef leyft mér að gera það í aðeins víðara samhengi en akkúrat varðandi þessi fjáraukalög. Þau eru ekki annað en staðfesting á því sem þegar hefur verið ákveðið og má segja að það sé gott að það sé þó gert með fjárauka. Um tíma var útlit fyrir að það yrði ekki gert heldur ætti að gera það í gegnum varasjóði og þess háttar tilfærslur. Það er mjög gott að ríkisstjórnin sá að sér, eða hæstv. fjármálaráðherra, og lagði fram frumvarp til fjáraukalaga.

Þetta er síðasta plagg ríkisstjórnarinnar sem fjallar um fjármál ríkisins. Nýlega er búið að afgreiða fimm ára áætlunina og um hana var mikil umræða. Það fór náttúrlega eins og venjulega að þar var lítt hlustað á þann flokk sem ég tilheyri og ég veit að nákvæmlega sama gildir um alla aðra stjórnarandstöðuflokka. Ríkisstjórnin hefur haft það verklag að hlusta lítið á góðar hugmyndir eða a.m.k. að gera tilraun til að gera eitthvað af þeim að sínum. Að vísu stundar hún það mjög oft að taka þær og gera þær að sínum og flytja í eigin nafni síðar. En það er nú eins og það er.

Það sem ég vildi aðeins fara inn á í þessari ræðu er hlutur sem ég held að sé mikið umhugsunarefni í efnahagsstjórninni. Það er ástandið sem er á fasteignamarkaði núna. Þar er margt sem kemur til. Það má kannski segja um a.m.k. þessa ríkisstjórn, kannski eru aðrar sekar um það líka, að hún hafi ekki tekið þann málaflokk nógu föstum tökum. Stjórnvöld hafa verið að setja ýmsar ráðstafanir inn í kerfið, setja á það alls konar plástra. Verið er að hvetja fólk, og hefur verið gert m.a. í tíð þessarar ríkisstjórnar, til að kaupa sér húsnæði. Það hefur verið gert með því að veita skattalegar ívilnanir, t.d. með því að nýta séreignarsparnaðinn, sett hafa verið upp svokölluð hlutdeildarlán og lánshlutföll hafa verið hækkuð. Allt veldur það því að það verða aukin umsvif á fasteignamarkaði og fleiri sjá sér mögulegt að eignast húsnæði. Það hefur allt saman áhrif á eftirspurnina og þar með hefur það áhrif á verðlagið, og eins og við vitum og þurfum ekki að hafa svo mörg orð um, þá hefur framboð og eftirspurn eftir húsnæði ekki verið í jafnvægi.

Síðan gerist það til viðbótar að vextir lækka, voru lækkaðir hér mikið, og kom svo sem ekki til af góðu eins og við vitum, en í öllu falli lækkuðu þeir verulega. Það jók enn þrýstinginn á þennan sama markað og margt ungt fólk sérstaklega fór að velta því fyrir sér að það yrði að grípa þessa gæs meðan hún gæfist. Nú væru kjöraðstæður til að fara inn, vextir lágir, lánshlutföll há og hægt að nota fé með skattafslætti. Það verður til þess að allur þrýstingur í kerfinu eykst enn frekar. Síðan kemur hinn anginn á þessu, við erum þegar byrjuð á vaxtahækkunarferli aftur sem mun leiða til þess að margir sem hafa spennt bogann of hátt eða a.m.k. mjög hátt til að komast inn á markaðinn munu verða fyrir því að greiðslubyrði af lánum og vaxtabyrði mun aukast og enn er spáð hærri vöxtum. Það veldur því að þessi markaður er undir álagi sem er að mörgu leyti til heimatilbúið.

Það nýjasta er að nú er búið að leggja fram frumvarp um (Forseti hringir.) að Seðlabankinn fái enn frekari tæki til að hemja markaðinn, (Forseti hringir.) róa æsinginn á markaðnum, minnir mig að seðlabankastjóri hafi sagt. (Forseti hringir.) Nú getur fólk allt í einu staðið fyrir því að lánshlutföll verði lækkuð verulega. (Forseti hringir.) Það finnst mér vera mjög alvarlegt mál og svolítill áfellisdómur yfir stjórnvöldum (Forseti hringir.) að hafa ekki betri yfirsýn yfir það hvað er orsök og afleiðing í þessum efnum öllum.

(Forseti (BHar): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)