151. löggjafarþing — 104. fundur,  1. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:57]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég vísa hér til frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2021 þar sem eru athugasemdir og skýringar. Þar er gerð grein fyrir því að á málefnasviði 25, Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, sé lagt til að veitt verði 1 milljarðs kr. aukafjárheimild til málaflokksins vegna tímabundinnar hækkunar daggjalda til hjúkrunarheimila. Þar segir, með leyfi forseta:

„Skilyrði fyrir hækkuninni er að rekstraraðilar hjúkrunarheimila samþykki tveggja mánaða framlengingu þjónustusamninga þannig að þeir gildi til loka febrúar 2022. Gangi það eftir verður daggjaldið hækkað fyrir yfirstandandi ár en hækkunin gengur til baka í byrjun næsta árs.“

Síðan er rakið, með leyfi forseta:

„Samningar Sjúkratrygginga Íslands við rekstraraðila hjúkrunarheimila renna út í árslok og er vinna að hefjast við gerð samningsmarkmiða næstu samninga. Til að styrkja rekstrarstöðu hjúkrunarheimila á þessu ári er lögð til framangreind framlenging samninga og tímabundin hækkun daggjalds. Það gefur aukið svigrúm fyrir endurskoðun á forsendum rekstrar hjúkrunarheimila sem byggist m.a. á þeim greiningum og viðbótum á þjónustunni sem nú standa yfir.“

Ég ætla að gera þessa hækkun að eilitlu umræðuefni. Það eru auðvitað fleiri mál í fjáraukalagafrumvarpinu sem þyrfti að fjalla um, þar á meðal samgöngumálin í Reykjavík. Þá vænti ég þess að geta hugsanlega átt orðaskipti við hv. þm. Smára McCarthy vegna þess að hann er fulltrúi flokks sem er stjórnarandstöðuflokkur á Alþingi en valdaflokkur á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur og fer þar m.a. með mjög mikilvægan málaflokk, skipulagsmál.

Ég ætla að halda mig við hjúkrunar- og dvalarrýmin, a.m.k. í upphafi. Mig langar til að segja tvennt um þetta til að byrja með, tvær grundvallarstaðreyndir sem liggja til grundvallar í þeim efnum. Annars vegar er sú lýðfræðilega staðreynd að öldruðum fer fjölgandi og sér í lagi ber að geta þess í því samhengi að háöldruðum fer jafnframt mjög fjölgandi. Það er alþjóðleg lýðfræðileg þróun sem hefur staðið yfir áratugum saman á heimsvísu og er vel þekkt í fræðunum. Það þýðir að það sem kallað er, væntanlega vegna þess að ekki hefur fundist betra orð, hjúkrunarþyngd mun fara vaxandi á þeim stofnunum sem við köllum hjúkrunarheimili. Það kallar á fleira sérhæft starfsfólk og blasir við að mun gera rekstur þessara stofnana dýrari.

Önnur grundvallarstaðreynd sem mig langar að nefna er að það er árlegur viðburður, eða gerist nokkrum sinnum á ári, að í hvert sinn sem hér eru rædd fjárlög, fjármálastefna eða fjármálaáætlun þá er komið að því hversu vanfjármögnuð hjúkrunarheimilin hér á landi eru. Það þarf ekki að leita lengi á vef Alþingis að umræðum og skjölum um það efni. Nú hefur það gerst að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sett á laggirnar starfshóp sem skilaði í apríl síðastliðnum heilmikilli og vandaðri skýrslu um rekstrarvanda hjúkrunarheimila. Það er auðvitað mikil framför í málinu að fá þá skýrslu. Hún er kennd við formann starfshópsins, Gylfa Magnússon prófessor, Gylfanefndin eða Gylfaskýrslan er sagt í daglegu tali, en ekki er gerð minnsta tilraun til þess að tengja þá aukafjárveitingu sem við ræðum hér í skýringum við niðurstöður þeirrar skýrslu. Sömuleiðis er þessi fjárhæð, 1 milljarður, ekki útskýrð. Ég hef farið yfir hvað segir um þetta efni í því þingskjali sem hér liggur til grundvallar frumvarpi til fjáraukalaga 2021 og þögnin um þetta efni, tengingu við rekstrarvanda hjúkrunarheimilanna, er allhávær, verð ég að leyfa mér að segja.

Rekstrarvandi hjúkrunarheimila hefur verið í fréttum. Undir lok maí var umfjöllun í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Ekki tekið á vanda hjúkrunarheimilanna“. Þar var verið að fjalla um breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar við þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Í þeirri frétt kemur fram að framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu — þar á meðal eru fyrirtæki sem hafa með höndum rekstur á hjúkrunarheimilum — Eybjörg Hauksdóttir, gagnrýni það harðlega að í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar hafi ekki verið fjallað um vanda hjúkrunarheimila. Það er auðvitað skylt að nefna að sömuleiðis er í fréttinni haft eftir formanni fjárlaganefndar, sem er auðvitað eins og við vitum hv. þm. Willum Þór Þórsson, að frekari gögn þurfi til að meta fjárþörfina nákvæmlega og að hann reikni með að tekið verði á vandanum í fjáraukalögum og fjárlögum í haust. Það hefur gengið eftir, a.m.k. hvað varðar fjáraukalögin, að hluta til verður að viðurkennast að það er tekið á vandanum. En spurningin er sú hvort þetta er fullnægjandi og í raun og veru, miðað við þær tölur sem birtast í þessari viðamiklu skýrslu sem ég hef hér nefnt, sýnist svarið augljóslega verða það að þetta er ekki fullnægjandi afgreiðsla á málinu.

Haft er eftir Eybjörgu Hauksdóttur í þessari frétt, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, að hún sé furðu lostin eftir lestur greinargerðar meiri hluta fjárlaganefndar, þarna er væntanlega átt við álit meiri hluta fjárlaganefndar, eins og við köllum það hér á Alþingi, og í fréttinni er haft eftir henni, með leyfi forseta:

„Það veldur okkur gríðarlegum vonbrigðum ef þetta eru viðbrögðin. Við höfum beðið í heilt ár eftir skýrslu sem greinir rekstrarstöðu hjúkrunarheimilanna. Hún er komin og sýnir vanfjármögnun heimilanna.“

Hún segir áfram, með leyfi forseta:

„Niðurstaðan frá 2019 er frekar vanmat en hitt því síðar komu til afturvirkar kjarasamningsbundnar launahækkanir. Augljóst er að staðan er mjög þröng og hjúkrunarheimilin stefna í þrot. En ekkert á að gera. Ríkisstjórnin virðist hvorki vilja sjá né heyra af þessum málum.“

Síðan í Morgunblaðinu í dag, herra forseti, er frétt um frumvarp til fjáraukalaga og sagt frá því að lagt sé til 1 milljarðs kr. tímabundið og skilyrt viðbótarframlag á þessu ári til hækkunar á daggjöldum hjúkrunarheimila vegna rekstrarvanda þeirra. Þá er haft eftir Gísla Páli Pálssyni, sem er formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, með leyfi forseta:

„Við erum að sjálfsögðu ánægð með að fá aukin fjárframlög í þennan fjársvelta málaflokk en við teljum að þetta dugi ekki til. Nú eru stjórnvöld nýbúin að fá óháða úttekt á því hver fjárþörfin er, frá Gylfanefndinni svokölluðu. Fagleg niðurstaða þeirrar úttektar var að hjúkrunarheimilin vantar 2,7 milljarða á ári til að ná endum saman. Við væntum því þess að fá meira á þessu ári eða í versta falli í byrjun næsta árs.“

Í fréttinni segir svo, með leyfi forseta:

„Hann vonast til að þá verði stjórnvöld búin að leggja línur um hvernig leyst verði úr rekstrarvanda hjúkrunarheimila landsins. Það skilyrði er sett fyrir 1 milljarðs kr. hækkun fjárheimildarinnar í frumvarpinu að rekstraraðilar hjúkrunarheimila samþykki tveggja mánaða framlengingu þjónustusamninga, þannig að þeir gildi til loka febrúar 2022. Gísli segir þetta dæmigert hjá ríkinu þegar menn sjái að ekki verði staðið við rétta tímafresti og það sé allt of algengt að ríkið taki sér of mikinn tíma í mál sem hægt sé að leysa á skemmri tíma. Að sögn hans leysir viðbótarframlagið í fjáraukalagafrumvarpinu ekki stóra vandann sem við er að glíma.“

Haft er þá eftir Gísla Páli, með leyfi forseta.

„Það má segja að þetta sé lítill plástur á stórt sár. Að sjálfsögðu fögnum við alltaf auknum framlögum en það hefði mátt vera meira.“

Ég verð að segja, herra forseti, að maður hlýtur að taka undir með talsmönnum þeirra fyrirtækja sem hafa rekstur hjúkrunarheimilanna með höndum. Ég hef vitnað bæði í Gísla Pál Pálsson og Eybjörgu Hauksdóttur og þau styðja auðvitað mál sitt rökum og vísa til þessarar óháðu úttektar sem er ágætt framlag. Mig langar að grípa hérna niður í úttektina, ég á að vísu mjög stuttan tíma eftir, en þar segir í útdrætti, með leyfi forseta:

„Spáð er verulegri fjölgun elstu íbúa landsins næstu áratugi, t.d. tvöföldun þeirra sem eru 80 ára og eldri á tímabilinu 2020 til 2040. Það mun að öðru óbreyttu kalla á verulega fjölgun hjúkrunarrýma og hjúkrunarþyngd gæti einnig aukist, sérstaklega ef heimilin leggja meiri áherslu á að bjóða búsetu fyrir þá sem eru elstir og hrumastir meðan aldraðir sem geta haldið eigið heimili gera það, eftir atvikum með heimaþjónustu og annarri aðstoð. Rekstrarkostnaður við hjúkrunarheimili mun því vaxa umtalsvert.“

Þá segir hér um rekstur heimilanna, en það er einkanlega fjallað um tímabilið 2017–2019 af því að fullnægjandi tölur voru ekki til fyrir árið 2020, með leyfi forseta:

„Rekstur heimilanna gekk misvel þetta tímabil en flest þeirra voru þó rekin með halla. Samtals voru heimilin rekin með 1.497 milljóna króna halla árin 2017 til 2019. Bókfærður halli“ — sem þessi tala endurspeglar — „var þó talsvert vanmat vegna þess að öll árin lögðu nokkur sveitarfélög til fé til heimila sem þau ráku til að mæta hallarekstri þeirra og þau framlög teljast til tekna. Án þeirra framlaga var tap heimilanna þessi þrjú ár 3.500 milljónir króna.“

Herra forseti. Ég sé að tími minn er að verða úti. Það er alveg nauðsynlegt að tekið sé á þessum rekstrarvanda með myndarlegum hætti þannig að það sé ekki eins og lítill plástur á stórt sár. Það þarf að taka á þessu máli. Það er algjörlega brýnt og það er algjör skylda stjórnvalda.