Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

stjórn fiskveiða.

539. mál
[14:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Með þessu frumvarpi er lagt til að skip sem skráð eru rafknúin á skipaskrá fái 100 kílóa aukningu á hámarksheimild landaðs afla, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð og strandveiðum, þ.e. 750 kíló í stað 650. Það er mikilvægt að draga það fram hér að hvatar til grænna fjárfestinga og orkuskipta hafa verið fjölþættir og er það skilningur meiri hlutans að áætlanir stjórnvalda gangi fremur út á að bæta í en hitt. Um fjölþættar aðgerðir er að ræða sem allar hafa það að markmiði að hvetja til orkuskipta á arðbæran hátt fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Auk þeirrar 100 kílóa aukningar sem um ræðir í þessu frumvarpi má nefna að sparnaður við kaup á olíu verður umtalsverður. Þá hafa styrkir til orkuskipta verið í boði vegna tækjabúnaðar sem nýtir endurnýjanlega orku, svo sem rafmagn í stað olíu. Einnig eru í boði svokölluð græn lán sem almennt bera lægri vexti en önnur og eru ætluð einstaklingum og fyrirtækjum sem fjárfesta í umhverfisvænum búnaði. Ekki er allt upp talið hér en ljóst að samlegðaráhrif þessara smærri báta eru þó nokkur og má ætla að einstaklingar og fyrirtæki sjái hag sinn í því að ryðja brautina þegar kemur að rafvæðingu smábáta.