Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Notkun ópíóíðalyfja.

[14:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir að efna til þessarar mikilvægu umræðu um hrikalegt neyðarástand. Ég tek undir málflutning hv. málshefjanda, ekki hvað síst um mikilvægi þess að bæta í úrræði, eins og hann hefur ítrekað talað fyrir hér, en einnig varðandi mikilvægi þess að koma í veg fyrir aukið aðgengi að fíkniefnum og sýnileika þeirra. Það er sérkennilegt að allstór hluti þingmanna sé nú farinn að tala að hætti Pírata í þessum málum. Fyrir fáeinum árum hefði það þótt hreint og klárt sérkennilegt að menn héldu því fram að ekki ætti að taka fíkniefni af fólki eða héldi því fram að fíkniefnaneysla væri bara afleiðing af því að fólki liði illa og sendu þau skilaboð út að fíkniefnaneysla væri eðlileg viðbrögð við því að líða illa. Eða eins og sumir, sérstaklega hv. þingmenn Pírata, hafa talað, að flestir lendi ekki í neinum vandræðum þótt þeir neyti fíkniefna. Hvaða skilaboð eru þetta til ungs fólks? Ég tala nú ekki um þegar menn hafa hér talað fyrir, og þessi ríkisstjórn hefur lagt fram frumvarp um það, að neysluskammtar, sem enginn gat útskýrt hvað væri enda þekkja menn það að neysluskammtur eins getur verið banabiti annars, ættu að vera lögleiddir, tíu neysluskammtar, sem augljóslega myndi auðvelda þeim sem selja eiturlyfin og reyna að fá fleiri til að ánetjast þeim sína vinnu. Fleiri kæmust í kynni við eiturlyfin og fleiri myndu lenda í vandræðum fyrir vikið. Það sem þarf að huga að umfram allt eru auðvitað forvarnir en einnig uppbygging á meðferðarúrræðum. Það er furðulegt að ekki skuli hafa verið fjárfest meira í því, að í allri þessari útgjaldaaukningu (Forseti hringir.) sem við horfum upp á hjá þessari ríkisstjórn fari ekki meira í það sem hlýtur að vera einhver besta fjárfesting sem hægt er að gera; að bjarga mannslífum.