Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Notkun ópíóíðalyfja.

[15:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það sem mér er efst í huga eftir þessa umræðu, góðar ræður og góðar ábendingar, góð innlegg, að sjálfsögðu ólík, það er umburðarlyndi. Eftir því sem ég hef reynt að setja mig meira og betur inn í þennan málaflokk þá er ég minntur á það rækilega hér að það er einhvern veginn þetta umburðarlyndi fyrir flækjustigi og fjölbreytileika hins mannlega sem skiptir mál. Það er einhvern veginn þannig sem maður, alla vega ég sem stend hér af auðmýkt, þarf að nálgast þennan málaflokk og fá alla saman að borðinu í þessu. Það er eins og kom fram hér að það er ekki eitt sem gildir fyrir alla. Það er ekki eitt atriði í skaðaminnkunarhugmyndafræðinni, ef við tökum hana, sem leysir málið. Það er fjölbreytnin, fjölbreytt úrræði og stuðningur við sjúkt fólk. Það er fyrst og fremst það og ég get tekið undir að það verður ekki undir hatti refsistefnu. Það er bara spurning hvernig við nálgumst það og hvernig okkur tekst saman að nálgast það. Þess vegna hef ég tekið hér þrjá ríkisstjórnarfundi og einn ráðherranefndarfund um samræmingu mála undir þennan málaflokk til að ná fram samstilltu átaki í þessu.

Reyndar þurfum við á fjölmörgum öðrum aðilum að halda í því. Það eru mjög fjölbreyttar tillögur, hæstv. forseti, mér gefst ekki færi á að fara yfir allar. Þær m.a. snúa að stefnu í skaðaminnkun, hana vantar. Það þarf að tengja hana, eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir kom inn á hér, geðheilbrigðisstefnu, geðheilbrigðisáætluninni og lýðheilsuáætlun. Við þurfum að efla úrræði sem eru fyrir eins og batamiðaða viðhaldsmeðferð. (Forseti hringir.) Við þurfum að auka aðgengi að naloxone-nefúðanum. Þar skilur á milli lífs og dauða, efla forvarnir og fræðslu, lágþröskuldaúrræði, (Forseti hringir.) viðbragðsþjónustu samvinnuaðila; Landspítala, heilsugæslu, Vogs og fleiri aðila. Það þarf meiri gagnaöflun, rannsóknir og reynslu. (Forseti hringir.) Frú Ragnheiður var frumkvöðull á þessu sviði og þar hefur samvinnan með naloxone-nefúðann reynst vel. Neyslurýmin er mjög mikilvægur þáttur (Forseti hringir.) og ég vil ítreka hugmyndir um að morfínklíník er ekki neyslurými eins og þau eru skilgreind, en þau hafa reynst vel erlendis og við þurfum með stefnumótunarhópnum (Forseti hringir.) að kynna okkur hvað í því felst og hvernig það getur reynst. — Afsakaðu, hæstv. forseti.