Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla nú bara að standa við það að ég hef lesið úr orðum hv. þingmanns í þessari ræðu að hér verði, ég get ekki farið beint með orð hv. þingmanns en eitthvað í þá átt að tugir þúsunda muni bíða á línunni eftir þjónustu í síma af því að einhverjir tveir starfsmenn muni ekki geta sinnt verkefninu. 70 mínútna bið eftir símtali við heimilislækni sem ég get ekki séð að tengist þessu máli nokkurn skapaðan hlut.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann ræddi mjög mikið um hjúkrunarheimilin: Hugnast honum betur að fjármagni, tíma og kröftum okkar sé varið í það að byggja fleiri hjúkrunarheimili? Hann talaði líka um: Bíddu, er fólk að bíða í röð sem vill ekki fara þangað? Ég þekki fullt af eldra fólki út um allt land. Fólk sem ég þekki og er að bíða eftir að komast inn á hjúkrunarheimili þarf virkilega á því að halda. Það er ekki endilega að það langi að hætta sjálfstæðri búsetu heima hjá sér, með sínu dóti, sínum gæludýrum, sínum nánustu í nágrenninu. Það er bara alls ekki mín upplifun að stærstur hluti eldra fólks sé að bíða eftir því að fara inn á hjúkrunarheimili. Það eru biðlistar af því að fólk er í þörf. Við erum að vinna í haginn. Við erum að bregðast við af því að það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á: Vandinn er ekkert að fara. Eldra fólki er að fjölga mjög hratt. Við eldumst öll og vonandi fáum við að vera í þeirri stöðu að fá að fylla þann hóp einn daginn.

Þannig að ég bara spyr: Væri okkar tíma, fjármögnun og kröftum betur varið í að byggja fleiri hjúkrunarheimili til að setja fólk þar inn, frekar en að stuðla að sjálfstæðri virðingarverðri búsetu heima?