Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:24]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir seinna andsvar. Já, ég held að við þurfum meira heldur en hagsmunagæslu. Ég held að við þurfum meira heldur en tvo aðila sem sitja við símann. Ég held að þeir muni nú reyndar þjónusta töluverðan hóp fólks. Meginmarkmiðið í aðgerðaáætluninni er að reyna að taka heildrænt utan um þennan hóp. Eins og ég nefndi hér áður, ég þekki svo sem ekki hversu langt þessi vinna er komin eða hvernig henni miðar, þá er hagsmunagæsla fyrir eldra fólk eitthvað sem ég tel vera mjög mikilvægt. Varðandi í hvaða form hún verður síðan sett þá leyfi ég sérfræðingum að koma með slíkar tillögur en ég tek undir með þingmanninum að hún er sannarlega mikilvæg. Hversu margir í þessum stóra hópi eru tölvufærir, eins og sagt er? Ég held reyndar að sá hópur sé gríðarlega stór, stærri heldur en margir halda. Nú vísa ég bara til fólks í kringum mig. Við megum aldrei vanmeta þennan öfluga hóp. Hann er viljugur að læra og hefur sýnt það í gegnum tíðina. En þeir sem ekki geta notið þjónustu í því fyrirkomulagi sem sett er upp — við verðum auðvitað að grípa þann hóp, það gefur augaleið. Þess vegna tel ég svo mikilvægt í þessu og ég nefndi það sérstaklega í ræðu minni að hafa mælaborð um árangur og eftirfylgni þeirra verkefna sem við erum að fara í og hverju þau skila. það skiptir svo miklu máli í þessari vegferð vegna þess að í svona stórum málaflokki þegar allt er undir er alveg ljóst að á einhverjum tímapunkti munum við þurfa að laga kúrsinn. Þess vegna verðum við að fylgjast vel með og við verðum að tryggja að enginn falli milli skips og bryggju í því sem við ætlum okkur að gera til framtíðar í málaflokknum.