Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[17:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að segja að mér finnst málflutningur Flokks fólksins svolítið sérstakur hér. Ég tel að flokkurinn eigi að fagna þessari tillögu en ég tek undir það sem hefur komið fram af hálfu Flokks fólksins að það er þörf fyrir sérstakan hagsmunafulltrúa eldra fólks og ég styð þá tillögu heils hugar. En þessi tillaga snýr ekki að því. Hins vegar snýr hún að mjög mikilvægu málefni sem er þessi aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk. Þessi tillaga er vel sett fram og í vinnunni hefur verið haft víðtækt samráð. Það er hægt að lesa um það hér í tillögunni sjálfri. Því ber að fagna sérstaklega að haft hefur verið samráð við alla sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta í þessum málaflokki og það er afar mikilvægt.

Þetta verkefni er eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar eins og kemur fram í stjórnarsáttmálanum. Það var skipuð verkefnastjórn síðastliðið sumar sem hefur unnið að þessari aðgerðaáætlun í samvinnu við haghafa og í desember var hún sett til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Allt samráð er afar mikilvægt í svo mikilvægum málaflokki og það hefur svo sannarlega verið viðhaft og ég fagna því sérstaklega.

Komið hefur fram í umræðunni að það ríki almennt ánægja með þessa áætlun og þá áherslu sem stjórnvöld hafa lagt á þennan málaflokk. Oft er talað um að við eigum að gefa eldra fólki áhyggjulaust ævikvöld. Það á að sjálfsögðu ekki að vera einhver innihaldslaus framsetning. Það sem skiptir verulegu máli í þessu öllu saman er að hrinda þessari áætlun í framkvæmd. Okkur ber skylda til þess að fólkið sem hefur skapað það samfélag sem við búum í, og hefur lagt mikið á sig í þeim efnum, fái að ljúka sinni ævi í öryggi og með reisn. Það eru að sjálfsögðu mannréttindi að búa við áhyggjulaust ævikvöld.

Sú hætta hefur verið til staðar í þessum málaflokki að aldraðir eigi það á hættu að festast í kerfinu og að ekki finnist úrræði til að leysa vandamál þeirra, við þekkjum dæmi þessa, og í sumum tilfellum eru úrræðin ekki fyrir hendi. Þessi áætlun er mjög vel fram sett hvað það varðar að úrræðin eru mjög skýr og taka hvert við af öðru. En þetta er dýr málaflokkur eins og við vitum og verður samfélaginu dýrari með hverju árinu. Þess vegna er afar mikilvægt að þjónustan nýtist þeim best sem þurfa mest á henni að halda. Það er ekki aðalatriðið hver á að reka þjónustuna en þessi tillaga snýr fyrst og fremst að því að gefa eldra fólki kost á því að búa sem lengst heima við og það er sannarlega mikilvægt. Höfum í huga að aldraðir hafa í raun og veru ekki tíma til að bíða eftir lausn á sínum málum. Það mega því ekki vera neinir hnökrar í því að hrinda þessari áætlun í framkvæmd. Við þekkjum það líka að margir sinna öldruðum foreldrum sínum eða ættingjum vegna þess að kannski er ekki nægileg þjónusta fyrir hendi og við verðum að sjá til þess að aldraðir séu ekki að upplifa sig sem einhvers konar ölmusufólk eða verði félagslega einangraðir. Þessi tillaga er þess vegna afar mikilvæg í mínum huga. Við þekkjum það að þessi þjóðfélagshópur er ekki mjög hávær og ekki þekktur fyrir að kvarta.

Ég nefndi það í andsvari hér fyrr í þessari umræðu að ég teldi að það hefði verið æskilegt að ávarpa atvinnuþátttöku eldri borgara í þessu samhengi. Við þekkjum að það hafa verið gerðar kannanir meðal eldra fólks sem hafa sýnt það, nær allar kannanir, að miklum yfirgnæfandi meiri hluta finnst að það ætti að auðvelda þeim sem eru komnir á lífeyrisaldur að vera virkir á atvinnumarkaði. Ég styð það heils hugar. Atvinnuþátttaka eldri borgara færir þeim aukna virkni í samfélaginu og svo vitum við að aukin virkni stuðlar að vellíðan og lífsánægju. Því virkara sem eldra fólk er, því meiri lífsgleði upplifir það. Þetta sýna kannanir. Stjórnvöld verða að vera meðvituð um þetta. Enn og aftur vil ég segja að þau verða að vera meðvituð um stöðu, væntingar og viðhorf aldraðra þegar kemur að atvinnuþátttöku og jákvæðum áhrif hennar á líðan eldri borgara. Þó að þetta sé ekki inntak þessarar tillögu þá tengist þetta óneitanlega.

Það er kannski eitt, frú forseti, sem ég vildi koma að í lokin, ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu, en það er þegar einstaklingur stendur síðan frammi fyrir því að geta ekki verið lengur heima. Þrátt fyrir þau góðu úrræði sem þessi tillaga leggur til er eitt sem mig langar að ávarpa í því sambandi. Það þarf að þjálfa starfsfólk sem starfar á hjúkrunarheimilunum í því t.d. að bregðast við einelti. Fyrir nokkrum árum var gerð mjög athyglisverð rannsókn við Háskóla Íslands um einelti á hjúkrunarheimilum. Það var lokaverkefni við Háskólann eftir Pétur Kára Olsen. Ég vil hvetja þingheim til að kynna sér þá rannsókn vegna þess að það er því miður þannig að einelti viðgengst á hjúkrunarheimilum og eru karlmenn þar oftast í hlutverki þolenda. Það er algengt að þetta einelti sé af andlegum toga og lýsi sér m.a. í baktali, illu augnaráði, höfnun o.s.frv. Ég held, miðað við að lesa þessa rannsókn sem er mjög athyglisverð, að starfsfólk fái ekki nægilega þjálfun um einelti og sé jafnvel ekki meðvitað um eineltisáætlanir, ef þær eru þá til staðar. Ég nefni þetta hér vegna þess að það er ekkert langt síðan ég las þessa rannsókn og mér fannst hún svolítið sláandi og lýtur náttúrlega að þessum málaflokki, málefnum eldra fólks.

Að þessu sögðu fagna ég þessari tillögu og legg áherslu á að það verði ekki neinir hnökrar í því að hrinda henni í framkvæmd sem allra fyrst.