Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

myndlistarstefna til 2030.

690. mál
[18:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Jóhann Friðrik Friðriksson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Stutta svarið er auðvitað já, ég held að það gæti verið mjög fýsilegt að fara þá leið. Auðvitað er það þannig að þegar ríkið til að mynda stendur í að byggja húsnæði og slíkt þá er litið til listarinnar. Listin er bara þannig. Þegar við fjöllum um myndlistarstefnu erum við allt of gjörn á að njörva það niður við það sem í flestra huga er þessi hefðbundna myndlist á veggjum heimila og stofnana. En auðvitað er myndlist miklu víðari en það. Það er vert að líta til þess hvers konar hvata væri hægt að útfæra til að ýta undir myndlist, umhverfislist og fleiri listaþætti, ef svo má segja, vegna þess að þeir eru mikil prýði og þeir auðga andann. Slík verkefni yrðu ekki bara til að að lyfta undir listamanninn heldur líka til þess að leyfa umhverfinu og samfélaginu að njóta listarinnar. Mér fyndist vera jafn mikill hvati í því. Þó að ég geri alls ekki lítið úr því að allir þurfi að fá fyrir sín verk þá held ég að partur af því að lyfta myndlist á Íslandi á hærra stig sé að tryggja aðgengi að henni. Umhverfislistaverk falla sannarlega undir það.

Að lokum verð ég að segja að það ágæta fólk sem kom til fundar við nefndina hafði margt mjög jákvætt fram að færa en sá punktur sem ég tók svolítið frá þeirri umræðu var einmitt hversu víðtæk sú skilgreining er sem við erum að fást við. Stefna eins og þessi verður sannarlega að rúma alla þá skilgreiningu.