Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[19:02]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem hér hafa tjáð sig. Þetta er viðkvæmt mál. Þetta varðar eignarrétt og ráðstöfunarrétt. Maður skilur ósköp vel að það langar engan að hafa háspennulínur beint fyrir utan húsið sitt eða gluggann sinn.

Þótt lengi hafi verið þrjóskast við er loksins búið að viðurkenna samhengið sem bent var á fyrir 45 árum milli háspennu og hvítblæðis í börnum sem búa í námunda við háspennulínur. Vegir rafmagnsins eru ekki að fullu kannaðir eða hliðaráhrif þess, svo að það sé sagt.

Eigandi 40% af ósnortnum víðernum í Evrópu er okkar fallega land áfangastaður milljóna. Sá fjöldi fer vaxandi frá ári til árs sem kemur hér til að njóta fegurðar Íslands. Það ljótasta við Ísland að mínu mati eru hin stórkarlalegu mannvirki sem flytja rafmagn milli landshluta frá virkjunum að álverum eða hvað það nú er.

Hlutirnir hafa breyst. Það þótti mjög flott að planta álveri við borgarhlið í Reykjavík fyrir 50 árum. Það yrði sennilega ekki sú staðsetning sem valin væri í dag, með fullri virðingu. Disneylandið, sem ég hef stundum leyft mér að líkja Íslandi við, við þurfum að gæta þess og mættu gjarnan vera skýrari fyrirmæli um það í þessum lögum að fela þessar raflínur eftir megni.

Er hv. þm. Ingibjörg Isaksen mér sammála um það að við skulum hafa fegurð og ytri útlitsþætti í fyrirrúmi þegar við tökum ákvarðanir sem þessar?