Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni fyrir hans andsvar.

Ég tek undir mikilvægi þess að skoða það að setja raflínur í jörð þar sem möguleiki er til þess og að það sé gert. Ég veit að Landsnet á í þéttu samtali við sveitarfélög varðandi slíkt. Þá er horft til þess hvað kerfið geti boðið okkur upp á. Það er ekki alltaf þannig að hægt sé að leggja allar raflínur í jörð, t.d. ef horft er á landslag og stærð raflína.

Varðandi sveitarfélög og réttindi þeirra í skipulagsmálum þá var unnið afar þétt að þessum breytingartillögum og tekið tillit til þeirra umsagna sem komu fram hjá sveitarfélögum. Í raun má segja að þótt breytingarnar virðist umfangsmiklar eru þær ívilnandi í raun og ganga skemur en upphaflega var gert ráð fyrir í frumvarpinu.

Nefndin sendi tillögur sínar að breytingum út til umsagnar, sem gerist sjaldan. Verður að telja að nefndin hafi sinnt þessu eftir fremsta megni og átt í afar þéttu og góðu samtali við ráðuneytið, Skipulagsstofnun, Landsnet og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ég, sem framsögumaður málsins, átti þó nokkra fundi með þeim til að ná sameiginlegri og góðri niðurstöðu.

Ég tel að þetta frumvarp verði til bóta. Við þurfum vissulega að skoða hvert og eitt verkefni fyrir sig út frá þeim forsendum sem við miðum við hverju sinni.