Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[19:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsöguræðu hans um nefndarálit minni hlutans. Það er alveg rétt að frumvarpið hefur átt sér langan aðdraganda með aðkomu ólíkra aðila. Eftir atvikum var tekið tillit til þeirra í nýjum lögum og til umsagna við fyrri framlagningu. Svo var auðvitað átakshópurinn sem starfaði með fulltrúum sex ráðuneyta og kom fram með tillögur að aðgerðum, m.a. þessari raflínunefnd.

Það er alveg rétt að sumir vildu ganga lengra en aðrir skemur. Mig langar að spyrja út í orð hv. þingmanns varðandi skilvirkni og einföldun á þessu ferli. Við gefum okkur að það séu þrjú sveitarfélög sem samþykkja skipulag raflínu í gegnum sveitarfélag sitt og við höfum líka Landsnet sem er framkvæmdaraðili. Í þessu tiltekna dæmi fara fram þrír ferlar aðalskipulagsbreytingar samkvæmt skipulagslögum ásamt umhverfismatsferli fyrir framkvæmdina samkvæmt lögum. Það er ekki tryggt að þessir þrír ferlar, plús sá fjórði frá Landsneti, fari af stað á sama tíma. Auðvitað er til staðar möguleiki á samþættingu samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Gefin eru út þrjú framkvæmdaleyfi í þessu tilfelli, að lokinni aðalskipulagsbreytingu og umhverfismati, sem öll eru kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Gróflega metið er samanlagður fjöldi umsagna frá umsagnaraðilum, ef gert er ráð fyrir að ein hagsmunasamtök geri athugasemd við öll ferlin, um 120 umsagnir vegna skipulags- og umhverfismats á ferli þessarar framkvæmdar frá lögbundnum umsagnaraðilum og sveitarfélögum, Skipulagsstofnun og hagsmunaaðilum. Þar af eru 90 umsagnir vegna skipulagsferla.

Miðað við sameinað skipulagsferli samkvæmt raflínuskipulagi ásamt samþættingu við umhverfismatsferli er í raun eitt ferli sem fer af stað hjá sveitarfélögum og eitt hjá Landsneti sem myndi einfalda þetta töluvert og auka skilvirkni. (Forseti hringir.)

Mig langar að kalla eftir frekari svörum frá hv. þingmanni varðandi það hvernig hann sér ekki einföldun og skilvirkni við þessa framlagningu frumvarpsins.