Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[19:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það sem ég legg áherslu á er að í staðinn fyrir að það sé óskað eftir þremur skipulagsákvörðunum og þremur framkvæmdaleyfum er í raun verið að leggja fram vettvang þar sem hægt er að samþykkja eitt skipulagsferli og eitt framkvæmdaleyfi. Að sjálfsögðu verður það til þess að það verða færri umsagnir frá sömu aðilum sem myndu annars veita umsagnir til þriggja sveitarfélaga í stað raflínunefndar.

Af því að hv. þingmaður vitnar í starfsmann Landsnets væntanlega, sem ég átti í náinni samvinnu við í tengslum við þessa breytingartillögu sem við leggjum fram, þá er það alveg rétt að það eru aðilar sem vildu ganga lengra. Það eru aðilar sem vildu ganga skemur. Við teljum að með þessum breytingum sé náð vissri skilvirkni.

Varðandi þetta einföldunarferli, hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að hægt væri að gera þetta með öðrum og betri hætti?