Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:13]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir andsvarið. Sú sem hér stendur er alltaf til í að ræða um þjóðaröryggismál. Við vitum að raforkuöryggi er auðvitað hluti af þjóðaröryggi. Þess vegna erum við að fjalla um þetta á þessum nótum. Ég held að það sé hins vegar mikilvægt að við skilgreinum með mjög vönduðum hætti öryggi hverra hefur forgang. Í mínum huga er algerlega á hreinu að öryggi heimilanna og venjulegra fyrirtækja hefur forgang en ekki stóriðjunnar þegar á reynir, eins og kemur líka fram í nýju frumvarpi frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, af því að við verðum að geta forgangsraðað ef á reynir. Það að skilgreina hins vegar grunninnviðina og það sem Svíar kalla „riksintresse“ er svo mikilvægt og við þurfum að taka það samtal. Ég ímynda mér að það samtal sé tekið t.d. innan þjóðaröryggisráðs og auðvitað í hv. utanríkismálanefnd. En til þess að fólk, hvernig á ég að orða það, vilji vera með okkur í þessu þá þurfum við kannski að tala um það á breiðari grunni. Ég held að allir Íslendingar hafi mjög góðan og djúpan skilning á mikilvægi raforkuöryggis en það er svo spurning um aðra slíka þætti, hverjir þeir eigi að vera, hvernig þeir eigi að skipuleggjast og eiginlega hversu langt á að ganga. Hv. þingmaður nefndi járnbrautarteina, sæstrengi, brýr. Allt þetta þarf að ræðast. Hluti af þjóðaröryggi okkar í þessu stóra samhengi eru líka viðbrögð okkar við hamfarahlýnun og þeim miklum loftslagsbreytingum sem þegar eru orðnar og verða að öllum líkindum meiri.