Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:15]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held ég hafi alveg farið úr karakter núna og gleymt að minnast á flugvellina í Svíþjóð. Þar eru 100 flugvellir og 30 eru einmitt undir „riksintresse“. Það verður að taka þetta fram hér í þingræðu, maður færi alveg úr karakter ef maður hefði ekki minnst á það í þessu samhengi þegar við erum að tala um þjóðaröryggi, þetta samhengi hlutanna, grunninnviði landanna og hvernig þetta er skilgreint í mismunandi löndum. Við Íslendingar eigum nefnilega ekki — við ræddum hér þjóðaröryggisstefnu í vetur og nú er ég nýhættur í utanríkismálanefnd frá því í síðustu viku, en við vorum með þetta mál í vetur í hv. utanríkismálanefnd og þar var mikil umræða. Frá 2016 fram að þeirri stefnu sem var samþykkt hér 2023 eru töluverðar breytingar, enda hefur samfélagið breyst gríðarlega á skömmum tíma. Netöryggismálin og fjölþáttaógnir koma mikið inn í þetta. Nú erum við að ræða raforkumálin hér og við sjáum t.d. umræðuna á NATO-þinginu um þessi mál, sem er orkuöryggi, þetta er eiginlega orðin hin stóra umræða eins og við þekkjum í Evrópu núna og byrjaði kannski í NATO-þinginu fyrir nokkrum árum, hvernig við treystum á orkugjafana og hvar við þurfum að tryggja þá. En við sjáum líka í hörmulegri og hræðilegri innrás Rússa í Úkraínu á hvað er verið að ráðast og er búið að vera að gera núna í 15–16 mánuði. Það er að lama samfélagið og raforkumannvirkin, raforkukerfið. Það er frumforsendan. Það segir okkur að það er tvennt sem er farið eftir í öryggismálum, sem eru kannski stærstu einstöku breyturnar akkúrat núna, það eru raforkukerfin og fjarskiptakerfin, að þetta virki allt í nútímasamfélagi. Við erum síðan að fara að treysta á 5G og annað sem verður hluti af þessu systemi og hvernig það virkar. Það er leiðinlegt að hafa bara tíma í andsvörum til að ræða þessi mál en vonandi höfum við tækifæri til að ræða þjóðaröryggislöggjöf í þessu landi innan einhverra missera.