Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:23]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Það frumvarp sem er hér til umfjöllunar fjallar svo sannarlega um mikilvæga hagsmuni. Það dylst engum að uppbygging raforkuinnviða er gríðarlega mikilvægt verkefni og það er alveg jafn ljóst að núverandi innviðir eru engan veginn fullnægjandi til að takast á við þær áskoranir sem eru fram undan, hvort sem það er vegna veðurbreytinga í kjölfar loftslagsbreytinga eða annarra breytinga eða orkuskipta. Þetta eru vandamál sem við stöndum frammi fyrir núna og þess þá heldur er freistandi að standa vel að verki. Ég væri afar feginn ef ég gæti hreinlega sagt: Þetta er flott og ég er reiðubúinn að samþykkja þetta. Vandamálið er að finna í umsögnum Landverndar og umsögnum sveitarfélaga sem hafa bent á annmarka við lögin og það er erfitt annað en að taka undir t.d. það sem Landvernd bendir á í sinni umsögn, að ráðuneyti fái töluvert marga fulltrúa í nefndina og jafnframt formennsku og svo ef það er ágreiningur þá gengur hann til ráðherra. Það gengur ekki alveg upp fyrir mér. Það gengur ekki upp að við tökum þannig svo dramatískt fyrir hendurnar á sveitarfélögunum.

Það er alveg ljóst að það væri mjög æskilegt að hægt væri að koma upp einhvers konar vettvangi þar sem sveitarfélög, ráðuneyti, framkvæmdaraðilar, gætu komist að einhvers konar samkomulagi og leyst úr ágreiningnum en ég sé ekki hvernig þetta frumvarp gerir það. Ég sé það ekki og heldur ekki að það sé leyst úr því hvernig eigi að bæta sveitarfélögunum þann kostnað sem þau gætu óhjákvæmilega orðið fyrir vegna þessara ákvarðana. Það getur líka hamlað fyrirhugaðri uppbyggingu í sveitarfélögum ef það er verið að ganga freklega á það hvar línurnar eru lagðar. Sveitarfélög sem hafa verið að tjá sig um þetta hafa áhyggjur af þessu og ég hef áhyggjur af þessu. Ég sé einhvern veginn ekki hvernig sjálfstæði sveitarfélaganna er tryggt í þessu frumvarpi. Ég sé það ekki.

Það er líka ákveðið áhyggjuefni þegar við höfum í huga tilefnið, sem eru stórveður sem gera það að verkum að raforka dettur út á stóru svæði. Við hljótum í það minnsta að íhuga að nálgast það á þann hátt að þessi uppbygging í þágu almennings ætti að vera í forgangi, ekki stórnotenda. Það ætti ekki að blanda því saman, að viðbragð til að tryggja almannahagsmuni sé jafnframt til þess að til að tryggja rafmagn til stórnotenda. Það getur jafnvel verið töluverð áhætta að það sé á sama neti. Ef eitthvað fer úrskeiðis og það fer mikil spenna inn á netið þá getur það verið alveg jafn skaðlegt og stórveður, ef ekki er gætt að þessum hlutum. Þannig að það er töluvert í þessu.

Eins og ég sagði áðan, ég væri manna fegnastur ef ég gæti bara samþykkt þetta, ef þetta stæðist þau viðmið sem mér finnst að þurfi að setja í þessu. Það þarf að gæta að sjálfstæði sveitarfélaganna. Ef það væri allt í góðu þá væri þetta ekkert vandamál. En mér sýnist bara dálítið skorta á að það sé búið að taka á þessum álitaefnum. Ég held að það þurfi að varast þá nálgun að það sé búið að leggja línurnar, það sé bara búið að taka ákvörðun um að leggja rafmagnslínur og við það verði staðið, alveg sama hvað sveitarfélögunum finnist um það. Fyrir mér er nokkuð ljóst, miðað við þetta fyrirkomulag, að ráðuneyti og ráðherra gæti auðveldlega þvingað það fram vegna þess hvernig nefndirnar eru mannaðar, sérstaklega þegar ágreiningurinn gengur til ráðherra.

Ég myndi hvetja til þess að reyna að gera þetta þannig að komið verði betur til móts við sveitarfélögin, sérstaklega í ljósi þess að ef það kemur upp einhver ágreiningur þá mun hann óhjákvæmilega ganga til dómstóla og þá er eins gott að þetta standist allt saman, að það sem við erum að gera í þessu standist þau viðmið sem sett eru í stjórnarskránni.

Hér er rosalega freistandi að standa vel að þessu þannig að það verði ekki meiri ágreiningur því að það myndi bara tefja þetta frekar. En ég myndi styðja það fullkomlega að búa til vettvang þar sem jafnræðis væri gætt milli sveitarfélaga og framkvæmdaraðila og mögulega þyrfti að skoða jafnvel aðkomu náttúruverndarsamtaka eins og Landverndar, að náttúran þurfi líka að hafa málsvara við borðið þegar kemur að þessari umræðu. — Ég ætla að segja þetta gott í bili.