Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu um þetta frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Tilgangur frumvarpsins er einmitt að einfalda úrlausn skipulagsmála sem varða hagsmuni almennings og örugga orkuinnviði og ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi öflugra og öruggra raforkuinnviða. Liður í þessu frumvarpi er að það sé farvegur til staðar til að leysa úr ágreiningi og ólíkum hagsmunum og aðkoma almennings er tryggð með þátttöku fulltrúa sveitarfélaga við borðið í þessari raflínunefnd og því samráðsferli sem útlistað er í frumvarpinu. Í rauninni halda allir ferlar sér sem eru samþykktir í dag. Þetta er eingöngu viðbót, komi til ágreinings. Hér er fyrir hendi frávik sem er skýrt afmarkað við framkvæmdir í flutningskerfi raforku og það er ekki ætlun löggjafans að það verði notað til að réttlæta önnur frávik á öðru sviði, t.d. ef við tölum um skipulag varðandi Reykjavíkurflugvöll og fleira. Sú skoðun löggjafans birtist ágætlega í nefndaráliti meiri hlutans. Hv. þingmaður bendir á að það sé ekki samráðsgrundvöllur fyrir sveitarstjórnir til að hafa aðkomu að málinu, en þessi nefnd er einmitt hugsuð til þess og það er lögð til breytingartillaga í nefndaráliti meiri hlutans þess efnis að það sé ekki eingöngu framkvæmdaraðilinn sem geti óskað eftir því að nefndin sé skipuð heldur geti sveitarfélögin, finni þau að það sé kominn einhver ágreiningur upp varðandi hugsanlega línulögn, kallað eftir því að nefndin sé skipuð. Þetta á ekki við um hvort það eigi að leggja línu, það er búið að ákveða það, heldur er verið að skoða það hvernig línan eigi að liggja í gegnum tiltekin sveitarfélög. Ég vil bara spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér að samráðið geti átt sér stað með betri hætti en lagt er til í þessu frumvarpi.