Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:37]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er bara horfa á það sem stendur í frumvarpinu og viðmiðin þar. Það er skipað í nefndina og hér er talað um að það þurfi meiri hluta nefndarmanna. Nefndin er skipuð fulltrúum frá stjórnsýslunni og fyrst það er ágreiningur þá er væntanlega eitt eða fleiri sveitarfélög sem eiga aðild að þessu sem eru þá sammála, og þá á það sveitarfélag sem er kannski á öndverðum meiði við ramman reip að draga. Ef það á að ná að verja sína hagsmuni, ef það á að hafa möguleika á því að taka á þeim álitaefnum sem eru uppi og vill koma sínu á framfæri — ef það er enginn áhugi fyrir því hjá ráðherra sem tekur þá við og leysir úr ágreiningi ef það fellur á jöfnu eða fulltrúa hinna sveitarfélaganna og stjórnsýslunnar þá átta ég mig ekki á þessu. Kannski erum við ekki að lesa sama frumvarpið, kannski er ég að misskilja þetta alveg hrapallega. En ég sé ekki hvernig það er möguleiki fyrir sveitarfélagið, sem er á öndverðum meiði við hina aðilana í nefndinni, á að tryggja sína hagsmuni þar sem á endanum virðist vera hægt að ýta þessu áfram. Það er það sem fellur mér ekki alveg í geð og að því er mér sýnist stendur það líka í mörgum umsagnaraðilum. Ég hefði viljað að það væri meira jafnræði í nefndinni og fleiri fulltrúar sem gætu gætt fleiri hagsmuna.