Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

skipulagslög.

144. mál
[20:41]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir andsvarið. Eins og ég vék að hér áðan er enginn ágreiningur um það hversu mikilvæg þessi uppbygging er og það er alveg ljóst að við verðum að taka þennan slag. Við verðum að taka slaginn um að byggja upp þessi kerfi. Við þurfum að auka flutningsgetu kerfisins. Við verðum að auka afkastagetu kerfisins. Um það er ekki ágreiningur. Það er heldur ekki ágreiningur um að það þurfi að vera hægt að leysa úr því ef uppi er ágreiningur. Ef það er raunverulega óleysanlegur ágreiningur milli aðila og uppbyggingin þarf að eiga sér stað þá er það óhjákvæmilega þannig að það þarf að leysa úr honum. Það þarf samt að vera þannig úrlausn að hún standist viðmið, að þegar leyst er úr þeim ágreiningi hafi aðilar haft möguleika á að verja sína hagsmuni. Sveitarfélögin sem eiga aðild að þessu þurfa að hafa haft möguleika á því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Það geta verið miklir hagsmunir undir og það getur verið að það þurfi að fórna miklum hagsmunum til að leggja línuna um sveitarfélagið. Það er það sem við þurfum að hafa í huga. Þarna geta verið gríðarlegir hagsmunir. Auðvitað eru það líka gríðarlegir hagsmunir að orkan sé örugg. Þess vegna er svo freistandi að tryggja það að meiri sátt skapist um þetta. Miðað við það hvernig sveitarfélögin hafa fylgt eftir þeim umsögnum sem hafa komið þá hefur ekki alveg gengið upp að tryggja þá sátt. Eins og ég vék að áðan þá þarf fleiri fulltrúa í þessa nefnd og það þarf fulltrúa fleiri sjónarmiða.