Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

breyting á ýmsum lögum um skatta og gjöld.

432. mál
[21:06]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ágústi Bjarna Garðarssyni fyrir hans framsögu. Það er ánægjulegt þegar við styrkjum nýsköpun í ljósi þess hversu mikilvæg nýsköpunin er fyrir atvinnulífið í landinu og bæði til framtíðar og í sögulegu tilliti þá höfum við séð nýsköpunarfyrirtæki gera stórkostlega hluti. En eitt stærsta vandamál nýsköpunarfyrirtækja er að tryggja sér fjármagn og ég myndi telja það afar brýnt að tryggja að löggjöf um nýsköpunarfyrirtæki, um hluti eins og kauprétti, sé aðgengileg og skiljanleg og það séu settir sambærilegir skilmálar og eru settir í nágrannalöndunum þannig að erlendir fjárfestar sem hafa hug á að fjárfesta í íslenskri nýsköpun sjái það ekki sem hindrun að hér sé búið að setja einhverjar séríslenskar reglur. Nægar eru hindranirnar þegar. Við erum býsna langt frá mörgum löndum; til að koma hingað þarf alltaf fara í flugvél, til þess að fjárfesta hér þarftu að nota örmyntina krónu og þegar við bætum við síðan einhverri lagaóvissu þá gæti það verið hreinlega meira en erlendir fjárfestar treysta sér til að fara í. Ég vil því spyrja hv. þingmann: Kannaði nefndin hvernig almennt er staðið svona löggjöf og kom til greina að samræma þessi atriði löggjöf nágrannaríkjanna, þannig að við myndum geta rutt úr vegi slíkum hindrunum í það minnsta, lagaóvissu í kringum nýsköpun?