131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Þekkingarsetur á Egilsstöðum.

687. mál
[14:13]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr mig hvort ráðuneyti menntamála hafi tekið afstöðu til þeirra tillagna sem lagðar hafa verið fram um þekkingarsetur á Austurlandi. Þessar tillögur hafa verið kynntar mér og öðrum í ráðuneytinu og koma þær m.a. fram í vinnuskýrslu á vegum Þróunarfélags Austurlands sem ber heitið Uppbygging þekkingargarðs á Egilsstöðum og þekkingarseturs sem samstarfsvettvangs háskólamenntunar, rannsóknastarfs, atvinnulífs og samfélagsþróunar. Einnig hafa ráðuneytinu borist ályktanir Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og tillögur að stofnskrá þekkingarseturs.

Tillögurnar fela annars vegar í sér stofnun þekkingarseturs á Egilsstöðum og hins vegar stofnun þekkingarráðs eins og hv. fyrirspyrjandi kom inn á áðan eða þekkingarnets Austurlands sem samhæfir síðan starfsemi er lýtur að rannsóknum, þróun og hálskólamenntun á Austurlandi.

Við í menntamálaráðuneytinu höfum tekið jákvætt í þessar tillögur og unnið með heimamönnum að þróun þeirra áfram. Við höfum líka í ágætu samstarfi við fjármálaráðuneytið unnið að því að fasteignir ríkisins yfirtaki húsnæðið að Vonarlandi á Egilsstöðum af Framkvæmdasjóði fatlaðra og leigi það síðan út fyrir starfsemi þekkingarseturs.

Fjármálaráðuneytið vinnur nú að endanlegri lausn þessa máls. Jafnframt hefur menntamálaráðuneytið beitt sér fyrir því gagnvart landbúnaðar- og umhverfisráðuneytum að stofnanir á þeirra vegum taki síðan af fullum krafti þátt í þekkingarsetrinu fyrir austan.

Afstaða mín til tillagna um þekkingarsetrið hefur því verið jákvæð og það hefur verið unnið að framgangi þeirra í samstarfi við heimamenn og önnur ráðuneyti. Það skal hins vegar tekið fram að málefni þekkingarsetra á landsbyggðinni eru ekki afdráttarlaust á forræði menntamálaráðuneytisins. Hins vegar hefur ráðuneytið beitt sér í uppbyggingu þekkingarsetra á Austurlandi og, eins og menn þekkja og vita, á Vestfjörðum á grundvelli samkomulags við iðnaðarráðuneyti um uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni. Hefur sérstöku fjármagni verið varið til þeirrar uppbyggingar í tengslum við byggðaáætlunina. Það er hins vegar forsenda fyrir því að framhald verði á uppbyggingu þekkingarsetra að sérstakt fjármagn fáist til reksturs þeirra eftir að núverandi byggðaáætlun lýkur í lok þessa árs þannig að hægt sé að halda áfram með þau brýnu verkefni sem uppbygging mennta- og menningarmála eru á landsbyggðinni. Ég hef þegar lagt fram tillögu í ríkisstjórn þar að lútandi.

„Verður skipaður starfshópur til að vinna málið áfram og hefur ráðuneytið í því sambandi sett sér einhvern tímaramma?“

Ég hef þegar tekið ákvörðun um að stofna starfshóp um þekkingarsetur á Austurlandi í þeim tilgangi að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu að stofnun þess. Er það gert í trausti þess að viðunandi lausn fáist á fjármögnun starfsemi þekkingarsetursins. Í starfshópnum munu eiga sæti fulltrúar heimamanna, háskóla og hagsmunaaðila. Þegar hafa farið fram viðræður við heimamenn um starf hópsins og verður gengið frá skipun hans á næstu dögum. Er gert ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum í júní á þessu ári.