131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Þekkingarsetur á Egilsstöðum.

687. mál
[14:22]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu um þekkingarsetrin og uppbyggingu þeirra á landsbyggðinni. Það er skoðun mín og ég hef margítrekað hana í þessum ræðustól að besta leiðin til að efla og styrkja landsbyggðina, bæði inn á við og út á við, er að stuðla að öflugri menntasókn, þekkingarsókn úti á landsbyggðinni. Það sama gildir að sjálfsögðu varðandi menningarmálin. Við sjáum að gróskan er mikil, ekki síst á því landsvæði sem við erum að tala um, þ.e. á Austurlandi þar sem m.a. menningarsamningur sem ég er nýbúin að skrifa undir við Austfirðinga hefur skilað geysilega miklu fyrir allan þann fjórðung. Við erum að sjá slíkan samning bera ákveðinn ávöxt. Ég held að það sé um leið bæði leiðarvísir og sóknarfæri fyrir önnur landsvæði.

Það sama má segja um þekkingarsetrið sem við erum að reyna að vinna heils hugar að. Við sjáum jákvæða þróun á Vestfjörðum. Þar hafa verið stigin mjög merkileg skref varðandi uppbyggingu Háskólaseturs á Vestfjörðum. Ef við stöndum vel að því og allri þeirri framkvæmd getur það hugsanlega orðið vísir að háskólastofnun eða heill háskóli síðar meir. Það fer allt eftir því hvernig við stöndum að þessu. Að mínu mati höfum við öll á þingi unnið af metnaði að því að byggja upp þessi þekkingarsetur.

Varðandi þetta tiltekna mál skiptir mestu að það er komið í farveg. Það er búið að setja þeim sem koma að þessu ákveðinn tímaramma og við bíðum og sjáum. Vonir standa ekki til annars en að þær niðurstöður verði jákvæðar, ekki bara fyrir landsfjórðunginn heldur fyrir okkur öll.