131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri.

611. mál
[14:57]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil í þessari umræðu víkja sérstaklega að þeim miklu flutningum sem fara fram á sauðfé á milli landsvæða eftir að sláturhúsum hefur fækkað sem raun ber vitni. Það er að mínu viti mikið áhyggjumál. Ég held að ég hafi réttar upplýsingar um að þess séu jafnvel dæmi að 48 klukkustundir hafi liðið frá því að fé er tekið af bæ og þangað til því er slátrað, stór hluti af því hafi farið í flutningstíma og tafir og síðan bið eftir því að hafin væri slátrun í viðkomandi sláturhúsi. Þetta held ég að sé mjög varhugavert og það snýr auðvitað að dýravernd.

Það sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á er flutningur á flutningstækjum sem fara bæði af riðusvæðum og inn á ósýkt svæði og síðan aftur til baka o.s.frv. Þarna held ég að liggi mikil hætta og við þurfum sérstaklega að huga að því hvort ekki þurfi að gæta vel að verkum á þessu sviði.