131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Söfn og listaverk í eigu Símans.

632. mál
[15:50]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg ótrúlegt hvað hv. þingmaður seilist í rauninni langt til að gera sölu Símans tortryggilega. Ekkert atriði í þessu máli er svo ómerkilegt að það sé ekki notað til þess að reyna að koma höggi á þann gjörning að koma Landssímanum úr eigu ríkisins til annarra.

Landssíminn hf. er hlutafélag og þegar það hlutafélag var stofnað var lagt mat á allar eignir og skuldir þessa félags. Síðan var því skipt og Íslandspóstur hf. stofnaður út úr því og þá fór hluti eigna eldra félagsins inn í Íslandspóst. Listaverk og safngripir voru og eru óverulegur hluti af eignum þessa félags, Símans, og eru ekki tilgreindir sérstaklega í reikningum félagsins.

Eins og ég sagði áðan felur fyrirhuguð einkavæðing í sér viðskipti með hlutabréf og hún hefur ekki sérstök áhrif á listaverk og safngripi umfram aðrar eignir félagsins. Núverandi eignir félagsins, þar með talin listaverk og safngripir, verða áfram í eigu félagsins nema stjórnendur þess taki sérstaka ákvörðun um sölu þeirra. Þetta er það sem ég vildi sagt hafa um þetta mál. Þetta sagði ég í fyrra svari mínu og ég læt mér aðdróttanir sem hér hafa komið fram frá ýmsum þingmönnum í léttu rúmi liggja.