132. löggjafarþing — 104. fundur,  19. apr. 2006.

Starfsáætlun þingsins.

[12:51]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Gagnrýni á fundarstjórn forseta, efnisleg gagnrýni, er sú að starfsáætlun þingsins stenst ekki, að ekki er gert ráð fyrir fyrirspurnatíma í dag eins og við eigum að geta reiknað með, að enn bíða 32 fyrirspurnir svars, að stefnt er að því að ljúka þingi 4. eða 5. maí. Eldhúsdagur er áætlaður 3. maí og ég spyr hæstv. forseta: Er búið að slá þá tímasetningu af? Listi yfir forgangsmál ríkisstjórnarinnar liggur ekki fyrir. Það er vaxandi ágreiningur um það frumvarp sem sett er á dagskrá í dag, frumvarpið um Ríkisútvarpið. Það er vaxandi ágreiningur, og deginum í dag hefði verið betur varið í að ræða þann ágreining og með hvaða hætti væri hugsanlega hægt að leysa hann með því að taka málið aftur inn í nefnd og ræða það betur. Það hefur margoft komið fram hjá fulltrúum Samfylkingarinnar, hv. þingmönnum, í menntamálanefnd að þeir telja að þar hafi málið ekki verið fullrætt.

Við, hv. þingmenn Samfylkingarinnar, fórum fram á það að fjölmiðlafrumvarpið svokallaða sem okkur er sagt að sé nánast tilbúið yrði rætt samhliða þessu frumvarpi um Ríkisútvarpið og þeim breytingum sem þar á að gera. Það stendur ekki lengur til boða, einfaldlega vegna þess að eftir því var ekki farið og þessi mál ekki tekin saman í umræðu í menntamálanefnd þannig að það er útilokað að ræða það. Við erum líka með á dagskránni mál frá félagsmálaráðherra allt of seint fram komin sem þarf samt að afgreiða fyrir 1. maí.

Virðulegi forseti. Auðvitað snýr þetta að fundarstjórn forseta en það snýr ekkert síður að því að hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn virða ekki starfsáætlun þingsins og virða ekki margítrekaðar óskir sem hafa komið fram frá hæstv. forseta um að menn virði þau tímamörk sem eru sett til að leggja hér fram mál, (RG: … meira eða minna.) heldur setja þau fram þegar þá lystir og síðan flýja þeir umræðu í þinginu. (Gripið fram í.) Forsætisnefnd á þá kannski ekki margra kosta völ annarra en verða við því að þau séu rædd. Þá ræðum við þau, og við ræðum þau vel og við ræðum þau lengi.