136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[16:29]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil fyrir hönd okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að þetta ágæta mál fari til allsherjarnefndar milli 2. og 3. umr. Ástæðan er sú að allsherjarnefnd leggur til breytingu á frumvarpinu sem við teljum að sé ekki til bóta en þar er lagt til að umsjón með nauðasamningi um greiðsluaðlögun verði á hendi sýslumanns eins eða fleiri eða annars opinbers aðila, samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra.

Nú er vitað að mikill fjöldi mála, jafnvel tugir þúsunda mála, bíða afgreiðslu hjá sýslumannsembættunum og við höfum áhyggjur af því að kerfið, eins og það er lagt til með þessari breytingartillögu, verði ekki nægilega skilvirkt og viljum leita allra leiða til að tryggja að nauðasamningar með greiðsluaðlögun og þau úrræði sem þetta frumvarp hefur að geyma sé skilvirkt og mannúðlegt. og þess vegna óskum við eftir að þetta fyrirkomulag verði tekið til endurskoðunar í allsherjarnefnd. Við greiðum því ekki atkvæði með þessari breytingu.