138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:37]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman orðin. Vissulega veitir ekki af að stappa stálinu í þá þingmannanefnd sem nú er að störfum því að hún á gríðarlega erfitt starf fyrir höndum. Hún á m.a. það erfiða starf fyrir höndum að taka fyrir sína eigin samflokksmenn og hugsanlega draga þá fyrir landsdóm. Það er ekki auðvelt verk.

Ég hef aldrei verið einn af þeim sem hafði efasemdir um innihald þessa plaggs, skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Ég hef alla tíð borið þá von í brjósti að skýrslan yrði yfirgripsmikil og nákvæm. Sú ósk rættist. Þetta plagg er sennilega eitt merkilegasta plagg allrar lýðveldissögunnar, ef ekki Íslandssögunnar. Ég fagna því innilega.

Það er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að í ræðum formannanna í gær var ekki í eitt einasta skipti minnst á siðferðilega ábyrgð stjórnmálamanna eða þingmanna sem nú sitja á þingi. Það olli mér áhyggjum því að núverandi þingmenn og ráðherrar bera siðferðilega ábyrgð samkvæmt eðlilegum siðferðisviðmiðum sem viðhöfð eru í nágrannalöndunum. Það er von mín að eftir þessa skýrslu og eftir úrvinnslu hennar verði komið á siðferðisviðmiðum í íslenskum stjórnmálum því að þau hafa ekki verið til staðar að mínu viti hingað til. Það gerum við með því að tala hér hvert við annað úr ræðupúltinu, vonandi með málefnalegum hætti eins og hér í dag og oft áður, ekki samt alltaf, en vonandi með það að markmiði að gera íslensk stjórnmál heiðarlegri og betri en þau hafa verið hingað til.