138. löggjafarþing — 104. fundur,  13. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[16:16]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ofsagt að menn hafi ekki hugmynd um hverjir þessir eigendur eru. Það liggur fyrir í grófum dráttum þó að menn þekki það ekki í smáatriðum. Þess utan er ég ekki sammála skilningi hv. þm. Birgis Ármannssonar á því hvað gerðist, þ.e. þeirri grundvallarspurningu hvort ríkið hafi selt eða ekki. Minn skilningur er einfaldlega sá að þessir bankar hafi verið, eða alla vega þær eigur sem bankarnir voru búnir til úr, í eigu kröfuhafa gömlu bankanna þegar þeir féllu. Það sem gerðist og var tilkynnt um síðsumars 2009 var einfaldlega það að hið opinbera keypti ekki bankana, þ.e. það lagði þeim ekki til eigið fé þannig að það eigið fé sem þeir hófu rekstur með var í eigu kröfuhafa þeirra sem eru þá kröfuhafar hinna föllnu gömlu banka.