139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en mér finnst hann óþarflega bjartsýnn. Annaðhvort gerist eitthvað á Íslandi eða það gerist ekki neitt. Annaðhvort fer einn af þremur bönkunum í þrot eða hann fer ekki í þrot vegna þess að þessir þrír bankar eru meginuppistaða fjármálakerfisins. Ef einn þeirra fer í þrot getur ríkissjóður ekki bjargað honum. Hann gat það ekki síðast þegar hann fór í þrot. Þá stendur eftir ríkisábyrgð á öllum innstæðum viðkomandi banka sem ég er ansi hræddur um að ríkissjóður geti heldur ekki greitt. Hér er verið að lofa upp í ermina á sér, lofa tryggingu sem ekki er til.

Í 40. gr. stjórnarskrár Íslands stendur, með leyfi herra forseta:

„Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið …“

Og í 41. gr.:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkrum dögum hvort ríkisábyrgð væri á innstæðum. Það komu á hann dálitlar vöflur því að það er engin ríkisábyrgð á innstæðum í dag. Þó að eitthvert fólk úti í bæ, hæstv. ráðherrar, lýsi því yfir að ríkisábyrgð sé á innstæðum á Íslandi hefur það ekkert gildi. Til þess þarf að nefna töluna í fjárlögum eða fjáraukalögum. Öðruvísi er ekki hægt að greiða út bætur. Ef það er forsenda allra breytinganna að það sé ríkisábyrgð á innstæðum og sú forsenda er röng eru menn að gera hérna geysilega stór og alvarleg mistök. Ég hef grun um að það sé einmitt tilfellið.