139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:13]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég lít svo á að hér séum við að stíga mikilvægt skref til að styrkja fjármálakerfið í landinu. Þetta er eitt af mörgum mikilvægum skrefum. Við þurfum að styrkja löggjöf um fjármálafyrirtæki, við þurfum að styrkja Fjármálaeftirlitið og stöðu Seðlabankans og við þurfum að koma innstæðutryggingakerfinu í gott horf. Það er ekki til staðar í dag. Við eigum gjaldþrota sjóð og þurfum að búa til nýjan. Við erum að reyna að setja upp kerfi til að koma í veg fyrir að ríkið þurfi að grípa inn í. En við þurfum að vera raunsæ á það að væntanlega getur þessi sjóður ekki tryggt innstæðueigendur ef einn af þremur bönkunum félli og þá mun ríkisstjórn hvers tíma meta hagsmunina og spyrja sig: Eigum við að bjarga þessum banka eða láta hann fara? Þá setja menn stöðuna eflaust upp í debet og kredit og finna út hvort er hagstæðara fyrir okkur, almenning í landinu.

Hv. þingmanni hefur orðið tíðrætt um að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 3. febrúar, og þá væntanlega sömuleiðis sama yfirlýsing sama efnis sem gefin var út á haustmánuðum 2008, hafi ekkert lagalegt gildi. Ég spyr: Er þá ekki eins gott að við reynum að setja upp innstæðutryggingarsjóð til að geta varið hinn almenna sparifjáreiganda komi til þess að lítill sparisjóður eða lítið fjármálafyrirtæki fari á höfuðið? Er þá ekki eins gott fyrir okkur, fyrst yfirlýsingin hefur ekkert gildi að mati hv. þingmanns, að við reynum að bregðast við með því að koma á fót einhvers konar samtryggingakerfi sem innlánsstofnanirnar sjálfar sjá um að greiða inn í til að koma hinum almenna sparifjáreiganda til varnar, væntanlega 95% af almenningi sem á upphæðir undir 15 milljónum inni í bankakerfinu? Við erum hér að þrengja skilgreiningarnar, taka út heildsöluinnlánin og fyrirtækjainnstæðurnar. Við erum að tryggja hina almennu eigendur sparifjárins og hv. þingmaður hefur nú oft og tíðum barist hatrammlega fyrir hagsmunum þeirra.