139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:47]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannaðist aðeins betur við félaga minn, hv. þm. Magnús Orra Schram, í þessari ræðu en í öðrum ræðum sem hann hefur flutt í dag. Ég held hins vegar að hv. þingmaður verði að fara að horfast í augu við það að þegar hann stóð í pontu áðan var hann að lýsa kjarnanum í þeim vanda sem við erum ekki einu sinni byrjuð að greina eða skoða, að við erum með banka sem eru of stórir til að hægt sé að leyfa þeim að fara í þrot. Það er það sem þingmaðurinn sagði sjálfur áðan. Það gerir það að verkum að innstæðutryggingakerfið — verið er að leggja það til í frumvarpinu að reyna að endurskapa það — mun aldrei geta gengið eftir. Við erum að tala um það að í kringum 90% af þeim innlánum sem tryggingakerfinu er ætlað að standa undir eru til staðar í þessum þremur stóru bönkum og hv. þm. Magnús Orri Schram sagði sjálfur að óháð því hvort frumvarpið verði samþykkt eða ekki muni ríkið væntanlega ekki geta leyft þessum bönkum að fara í þrot. (Forseti hringir.) Það er kjarni vandans, það er vandinn sem við höfum ekki verið að tækla þrátt fyrir áætlanir þingmannanefndarinnar, (Forseti hringir.) þrátt fyrir lög sem við settum um að skipa ætti nefnd til að ná utan um þetta og (Forseti hringir.) þrátt fyrir að efnahags- og viðskiptaráðherra hafi viðurkennt þennan vanda.