140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Í þeim umræðum sem hér hafa farið fram um þetta dagskrármál hefur víða verið komið við en það er eitt atriði sem ég vildi gera sérstaklega að umtalsefni í þessari ræðu vegna þess að ég hef orðið þess var í samtölum við fólk utan þings að það er eins og það átti sig ekki alveg á hvaða áætlanir eru í gangi af hálfu hv. meiri hluta um þetta mál. Til að reyna að gera langa sögu stutta er auðvitað um það að ræða að þessi tillaga sem slík gengur út á þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekinn spurningapakka eins og oft hefur komið fram hér og menn geta velt fyrir sér hvort um eiginlega þjóðaratkvæðagreiðslu sé að ræða eða skoðanakönnun í einhverju öðru formi. Hvað sem því líður er mikilvægt að menn hafi í huga að á sama tíma og þjóðaratkvæðagreiðsla á að vera í undirbúningi og umræður eiga að fara fram um efni hennar er ætlunin að í gangi verði vinna á vegum hóps sérfræðinga, það má víst ekki tala um að þarna sé um nefnd að ræða eða neitt slíkt, en af hálfu meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur verið rætt við hóp lögfræðinga sem margir hverjir hafa sérþekkingu á sviði stjórnarskipunarréttar eða á öðrum réttarsviðum sem reyna kann á í þessu sambandi. Þeir eiga að því er virðist að skila niðurstöðum sínum, úrvinnslu á tillögum stjórnlagaráðs, á svipuðum tíma og þjóðin á að taka afstöðu til tillagna stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frá öllum mögulegum sjónarhornum er þetta nokkuð sérkennilegt, sérstaklega vegna þess að þetta leiðir í ljós að á þeim tímapunkti þegar þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram eru tillögurnar sem verið er að greiða atkvæði um í raun orðnar úreltar vegna þess að einhver tilgangur hlýtur að vera fólginn í því að fá þessa lögfræðinga til verksins. Það hlýtur að vera ætlunin að þeir geri eitthvað. Hvað sem þetta eitthvað á að vera hlýtur það að leiða til breytinga á tillögum stjórnlagaráðs þannig að með því að setja upp tvo ferla sem eiga að eiga sér stað á sama tíma er verið að setja málið í eiginlega enn þá meiri upplausn og gera það óskýrara en ella.

Menn hafa velt svolítið fyrir sér hvað þessir ágætu lögfræðingar eigi að gera. Þeir eiga væntanlega að takast á við lögfræðilega ágalla á tillögum stjórnlagaráðs og ég velti fyrir mér hvað það ætti að vera. Miðað við þá gagnrýni sem hefur komið fram opinberlega kynni það að vera óskýr hugtakanotkun. Ef sérfræðingarnir fara að vinna í því að reyna að skýra þessa hugtakanotkun getur verið harla stutt í að breytingar á textanum verði ekki smávægilegar heldur verulegar því að hugtakanotkunin er auðvitað lykilatriði í þessu sambandi.

Hvað eiga sérfræðingarnir að gera þar sem þeir rekast á mótsagnir í tillögunum, þar sem einstök ákvæði rekast á? Væntanlega þurfa þeir að breyta einhverju. Það felur í sér breytingar á textum stjórnlagaráðs. Hvað eiga sérfræðingarnir að gera ef þeir verða varir við árekstur ákvæðanna við alþjóðlega sáttmála? Talað er um að þeir eigi að lagfæra það. Það hlýtur að leiða til einhverra breytinga. Síðast en ekki síst er rétt að geta þess að það hefur verið gagnrýnt að í mörgum ákvæðum tillagna stjórnlagaráðs sé um að ræða almennar og óljósar stefnuyfirlýsingar sem hafi óljós réttaráhrif og ef lögfræðingarnir eiga að vinna vinnu sína vel hljóta þeir að takast á við það með einhverjum hætti sem hlýtur þá að leiða til enn frekari breytinga á tillögum stjórnlagaráðs.

Síðan er rétt að hafa í huga að það hefur verið nefnt í umræðum að þessir ágætu sérfræðingar eigi líka að lagfæra greinargerð með einstökum ákvæðum. Það getur verið nokkuð tyrfið þegar um er að ræða slíka texta vegna þess að þeir geta haft veruleg áhrif á það hvernig hinn eiginlegi stjórnarskrártexti er túlkaður. Það er því ljóst að ef einhver meining er með því að láta þessa ágætu sérfræðinga vinna sína vinnu vel hlýtur það að leiða til verulegra breytinga (Forseti hringir.) á tillögum stjórnlagaráðs sem passar mjög illa saman við það að á sama tíma og þeir eiga að skila af sér eigi þjóðin að greiða atkvæði um tillögurnar óyfirfarnar.