141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má segja að barátta okkar framsóknarmanna sé að einhverju leyti að skila árangri. Hæstv. fjármálaráðherra er alla vega farinn að ræða málefni heimilanna og jafnvel kominn með frumvarp hér inn í þingið. Það sem ég mundi vilja spyrja hæstv. ráðherra út í er það sem kemur fram í fylgiskjali frá fjárlagaskrifstofunni. Þar er nefnt, með leyfi forseta:

„Til viðbótar má nefna að aðrar aðgerðir til að mæta skuldavanda þeirra sem tekið hafa lán með lánsveðum hafa verið til skoðunar. Í því samhengi hefur verið unnið að samkomulagi við lífeyrissjóðina um mögulega lækkun höfuðstóls íbúðalána en slíkt samkomulag gæti leitt til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.“

Ráðherra nefndi aðeins hversu erfiðlega hefði gengið að ræða við lífeyrissjóðina, en hvað nákvæmlega þýðir þetta „til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð“?

Í öðru lagi mundi ég vilja spyrja hæstv. ráðherra hvernig þessi breyting samrýmist þeirri stefnumörkun sem hefur komið fram hjá starfshópi og hæstv. velferðarráðherra varðandi það að koma á einu húsnæðisbótakerfi? Að afnema vaxtabóta- og leigubótakerfið og koma á einu samfelldu húsnæðisbótakerfi, eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fór mjög nákvæmlega í gegnum í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðunni. Ég hef heyrt að ríkissjóður hafi í raun verið að niðurgreiða vaxtakostnað hjá heimilunum og þar af leiðandi styrkja fjármálafyrirtækin og Íbúðalánasjóð um allt að því 25% af vaxtakostnaðinum og þannig jafnvel verið að hvetja til skuldsetningar frekar en að reyna að draga úr henni. Er þetta í samræmi við þá stefnumörkun sem stjórnvöld hafa haft í þessu máli?