141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[14:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hygg að nefndin muni skoða tímabilið, það munu vera einhverjir mánuðir.

Varðandi baráttuna við lífeyrissjóðina sem hæstv. ráðherra stendur í er hún mjög undarleg. Lífeyrissjóðirnir eru ekkert annað en skyldusparnaður heimilanna. Ég skil ekki af hverju hæstv. ráðherra er að berjast við skyldusparnað heimilanna. Hann er eitthvað sem heimilin eiga, það eru réttindi og miklir peningar. Eins og ég gat um áðan er sá sparnaður meginuppistaðan í sparnaði heimilanna, 20 milljónir á hvert heimili sem er mjög stór tala.

Vandinn sem við glímum við, og hæstv. ráðherra ætti að gera sér grein fyrir, er að sumir sjóðir, opinberu sjóðirnir, eru með réttindin tryggð samkvæmt lögum. Iðgjaldið hækkar og dinglar eftir því sem þarf. Það hækkar eins og það þarf og þyrfti að vera núna 19,5% af launum en er ekki nema 15,5% vegna þess að menn eru að salta vandann, gleyma honum. Það eru 57 milljónir sem vantar inn í fjárlögin þar. Ef menn láta lífeyrissjóðina borga eitthvað, alveg sama hversu lítið það er, mun það alltaf lenda á almennu sjóðunum. Ég ætla að vona að hv. þingmenn og hæstv. ráðherra skilji að ekki má fara þá leið vegna þess að það kemur niður á almennu sjóðunum sem eru með lakari lífeyrisrétt, verkamenn og aðrir slíkir, það kemur ekki niður á opinberu sjóðunum. Þess vegna er ekki hægt að fara neinar slíkar leiðir og þess vegna eru menn að glíma við þau vandræði. Ég sagði líka í upphafi að lánsveðin eru með erfiðustu málum að leysa.

Ég hefði talið, og kannski gerir nefndin það, að bæturnar ættu að fara til lækkunar á skuldinni þannig að vandinn leysist nokkrum sinnum ef það er gert í nokkrum skrefum.