141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[15:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum nú við 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla. Ég var því miður veik, svo það sé upplýst strax, þegar þetta mál var afgreitt út úr nefnd. Ég vil undirstrika að ég er í megindráttum sammála þessu máli. Ég tel mikilvægt að allir opinberir háskólar búi við sama lagaumhverfi, og með þessu frumvarpi er stefnt að því að allir opinberir háskólar búi við sömu lagaumgjörð. Þegar við breyttum háskólunum 2008 var bráðabirgðaákvæði í þeim lögum sem snerti það að lög um búnaðarfræðslu mundu falla brott. Það er verið að klára núna þessa hreinsun til að allir háskólar falli undir sömu löggjöf. Svo er önnur breyting sem að mínu mati er alveg hárrétt skref, að færa landbúnaðarháskólana eins og þeir hafa verið kallaðir, bæði á Hólum og Hvanneyri, undir menntamálaráðuneytið. Það hefur líka ávallt verið mín skoðun að mennta- og fræðslustofnanir eigi að mynda samfellu. Það er hægt að ræða það að framhaldsskólinn fari í framtíðinni yfir til sveitarfélaga og það er náttúrlega sjálfsagt og eðlilegt að núverandi menntamálaráðherra taki tillit til þeirrar bónar Garðbæinga, svo ég víki að því aðeins örstutt, að fá framhaldsskólann í Garðabæ sem tilraunaverkefni í rekstur. Þannig gæti Garðabærinn verið með heildstætt skólaferli fyrir íbúa samfélagsins, þ.e. frá leikskóla upp í grunnskóla og úr grunnskóla í framhaldsskóla, þannig að sami aðilinn beri ábyrgð á því. Það er sjálfsagt og eðlilegt að taka það tilraunaverkefnisskref.

Eins og ég gat um áðan er mikilvægt að þegar hið opinbera sér um mennta- og vísindastofnanir eins og háskólakerfið er verði það undir hatti og á ábyrgð menntamálaráðuneytisins.

Ég segi, og það er ekkert í fyrsta sinn, að í tengslum við umbreytingar í samfélagi hvar sem er í heiminum, eins og við Íslendingar stóðum frammi fyrir með hruninu árið 2008, eru um leið tækifæri fyrir stjórnvöld hverju sinni til að breyta kerfum, til að stokka upp og reyna að vera svolítið framsýn og framsækin og skipta um kúrs, a.m.k. nýta það svigrúm sem samfélagið veitir á slíkum umbrotatímum til ákveðinna krefisbreytinga. Mér finnst kerfisbreytingatækifærið hjá ríkisstjórninni annaðhvort hafa verið vannýtt eða verið nýtt til hins verra, í áttina að miðlægri stjórn, að sósíalisma getum við kallað það, að vissu leyti eins og við sjáum varðandi þær grundvallarbreytingar sem ríkisstjórnin er að keyra í gegn, t.d. í því sem snertir sjávarútveginn. Þar er verið að fara úr tiltölulega opnu, frjálsu markaðsdrifnu kerfi á sviði sjávarútvegsmála sem er til fyrirmyndar og eftirbreytni, það mikið til eftirbreytni að Evrópusambandið stefnir að því að taka upp svipað kerfi, yfir í félagslegt, sósíalískt kerfi sem á að þjóna að mínu mati einhverri óraunhæfri ídeólógíu. Eftir stendur að það verður minni hvati, minni arður, minni arðsemi, minni hagsæld sem við fáum út úr breyttu kerfi í sjávarútveginum, einmitt hagsæld, hvata og arðsemi sem stendur meðal annars undir því sem við erum að ræða hér í þessu máli, þ.e. starfsemi opinberra háskóla. Við verðum að hafa grunnundirstöðuatvinnuvegi eins og sjávarútvegurinn hefur verið og verður í ókominni framtíð. Við verðum að hafa slíka öfluga atvinnuvegi til að standa undir okkar öfluga velferðarkerfi sem við viljum gera betur í og færa til betri vegar þannig að framtíðin og börnin okkar geti tekist á við tækifæri sem vonandi blasa við.

Ég var að tala um breytingar á kerfi í tengslum við uppbrot í samfélaginu. Ég undirstrika að mér finnst þessi ríkisstjórn ekki hafa nýtt það tækifæri á sviði menntamála. Við samþykktum hér sem ég er margoft búin að fara yfir, óþarft að fara aftur í þann leiðangur, en bara örstutt vil ég þó segja að við samþykktum, allir þingflokkar, allir stjórnmálaflokkar, heildstæða skólalöggjöf, leik-, grunn- og framhaldsskóla. Við samþykktum meðal annars heildarlöggjöf um opinbera háskóla, um háskólastigið, nýja og betri kennaramenntun sem á að taka mið af Finnlandi og því sem þar hefur verið byggt markvisst upp á síðustu áratugum. Meðal annars fól þessi heildstæða nálgun í skólalöggjöfinni það í sér að við ætluðum að sjá miklu meiri eflingu iðn- og starfsnáms. Allir flokkar voru sammála um það og þess vegna samþykktum við lögin 2008. Allir flokkar voru sammála um að við vildum sporna við brottfalli. Þess vegna samþykktum við meðal annars lögin 2008 og flestir flokkar voru sammála um að við vildum sveigjanlegri skólaskil á árinu 2008 þannig að við tækjum tillit til hæfni og getu krakkanna okkar þannig að þau gætu flotið meira á milli skólastiga. Meðal annars þess vegna samþykktum við lögin 2008.

Við samþykktum líka að stefna að því að stytta námstíma til stúdentsprófs, ekki með miðstýrðu valdi eins og upphaflega var lagt upp með, heldur í áttina að því að auka sjálfstæði skóla með því að byggja upp möguleika framhaldsskólanna til að stofna nýjar námsbrautir til þess að efla iðn- og starfsnám, en líka til þess að koma til móts við það markmið að auka fjölbreytni á framhaldsskólastigi, auka fjölbreytni í stúdentsprófum þannig að meðal annars væri hægt að stytta námstíma til stúdentsprófs þótt það væri ekki nema um eitt ár sem er agnarlítið skref miðað við það sem aðrar þjóðir innan OECD eru að gera. Við erum eina þjóðin innan OECD-ríkjanna sem útskrifar stúdenta úr framhaldsskólum um tvítugt. Við skulum átta okkur á því að meðalnámstími í framhaldsskóla er ekki fjögur ár hérna heima, hann er fimm ár. Við eyðum þannig meiri tíma í skóla sem er ágætt ef innihaldið og magnið fylgir eftir og nýtir tímann innan skólakerfisins. Þar er hægt að gera betur og meðal annars þess vegna var farið af stað í þær breytingar 2008 sem áttu að taka gildi 2009.

Fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar var hins vegar að fresta gildistöku þess ákvæðis sem mestu skiptir til að byggja upp iðnnámið og starfsnámið, til að sporna við brottfalli og stuðla að því að fleiri skólar útskrifi nemendur eftir þriggja ára nám. Þessi ríkisstjórn sem nú er, vinstri stjórnin, forgangsraðaði þannig að hún ákvað að fresta því að taka á þessum málum varðandi iðn- og starfsnámið og brottfallið til ársins 2015 í staðinn fyrir að við værum þegar á þessu ári farin að sjá fram á það að iðn- og starfsnám væri stóreflt. Menntamálin eru langhlaup, eins og ekki síst hæstv. forseti veit manna best eftir mikla reynslu innan úr skólakerfinu, og við hefðum getað séð fram á það að innan einhvers tíma, innan fáeinna ára, mun minna brottfall ef þessum lögum hefði verið fylgt eftir af krafti. Það gerði þessi ríkisstjórn ekki.

Af hverju er ég að draga þetta fram? Jú, af því að annaðhvort gerði ríkisstjórnin ekki neitt á þeim tímum sem hún þurfti einmitt að bregðast við eða hún fór alveg í þveröfuga átt og fór eftir því sem einhverjir innan til dæmis Kennarasambandsins vildu.

Ég er að draga þetta fram af því að það nákvæmlega sama gildir um háskólana. Ég hefði viljað sjá svo miklu stærri skref tekin í átt til sameiningar á háskólastigi og ekki bara til sameiningar háskóla heldur líka til uppbrots á meðal annars vísinda- og rannsóknastarfsemi í landinu, þá þvert á rannsóknastofnanir, reyna að tengja atvinnugreinar landsins betur við bæði háskólana og framhaldsskólana.

Ég vil í þessu samhengi sérstaklega draga það fram sem við sjálfstæðismenn höfum samþykkt á landsfundi, nokkuð sem örugglega flestir geta tekið undir. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í landsfundarályktun okkar sem tengist háskólum, vísindum og nýsköpun:

„Menntun, vísindi og nýsköpun gegna lykilhlutverki á Íslandi í næstu framtíð. Fjárfesting í þekkingu og mannauði skapar verðmæti og er undirstaða samkeppnishæfni. Áríðandi er því að skilyrði til menntunar, rannsókna og nýsköpunar standist samkeppni á alþjóðavettvangi.

Háskólanám er fjárfesting fyrir bæði nemendur og samfélagið og eðlilegt að hvorir tveggja taki þátt í fjármögnun háskóla.“

Hér skiptir gríðarlega miklu máli að hafa í huga að eitt af fyrstu verkefnum ríkisstjórnarinnar var að skera niður tækninám. Þótt menn hafi reynt að bæta fyrir það á síðari stigum kjörtímabilsins fóru menn í það að skerða framlög til tæknináms, nokkuð sem hefur verið kallað mikið eftir að verði eflt og styrkt, ekki síst innan háskólanna. Háskólarnir hafa fengið stuðning í þeim málflutningi sínum, m.a. af hálfu atvinnulífsins.

Áfram stendur í landsfundarályktun okkar:

„Til að vera í fremstu röð þarf að auka framlög til háskólastigsins.

Mikilvægt er að stjórnkerfi háskólanna sé skilvirkt og gegnsætt og að yfirvöld styðji við vísinda- og fræðastörf. Vísbendingar eru um“ — þetta vil ég sérstaklega draga fram — „að fjöldi stofnana og háskóla hérlendis sé of mikill miðað við stærð samfélagsins. Slík samkeppni innan lands getur haft hamlandi áhrif á samhæfingu og samvinnu sem tryggja myndi betur alþjóðlega samkeppnishæfni.“

Nú kann einhver að pompa upp í ræðustól í andsvör og segja: Bíddu, var það ekki á vakt Sjálfstæðisflokksins sem háskólunum fjölgaði? Jú, það gerði það, enda var það mikilvægt skref á sínum tíma, m.a. undir forustu Björns Bjarnasonar sem menntamálaráðherra á sínum tíma, að veita öðrum skólum tækifæri til þess að setja af stað ákveðnar námsbrautir undir virku gæðaeftirliti af hálfu ráðuneytisins og hinna alþjóðlegu krafna sem verður og þarf að gera til háskólamenntunar, hvar sem hún er í boði.

Ég tel að þetta skref hafi verið mikilvægt á sínum tíma, m.a. til að breikka flóruna á háskólastigi. Það var líka mikilvægt skref til að við gætum síðan stuðlað að því að þjappa saman aukinni visku og þekkingu sem hefði fengist á þeim tíma í þeim fræðastofnunum sem sköpuðust, hvort sem er Háskólanum á Bifröst, Tækniháskólanum á sínum tíma eða öðrum stofnunum.

Hvað gerðum við síðan á síðasta og á þarsíðasta kjörtímabili? Við fórum í það, bæði í samvinnu við framsóknarmenn og samfylkingarmenn, að sameina háskólastofnanir, eins og Háskóla Íslands og Kennaraháskólann, með það að markmiði að styðja við þá breytingu sem við öll hér á þingi vorum sammála um að fara í gegnum með kennaramenntunina, að efla hana og lengja og efla starfsnámið. Ég kom inn á það í gær í fyrirspurn til ráðherra að umræðan um kennaramenntunina situr svolítið eftir, þ.e. hvernig við sáum fyrir þessa viðbót. Við sáum alltaf fyrir þessa viðbót varðandi tveggja ára viðbótarnámið, mastersnámið, að það yrði ekki eingöngu á sviði fræða, þ.e. fræðileg viðbót, heldur ekki síður á sviði starfsmenntamála í skólunum. Að því leytinu til hefur ekki verið haldið nægilega vel utan um það. En ég vil segja líka og draga það fram að ráðherra er mjög meðvitaður um það mikilvæga mál að halda betur utan um kennaramenntun og dró það fram í máli sínu í gær að hún væri sérstaklega í þessu samtali við sveitarfélögin og fræðasamfélagið um hvernig hægt er að þróa og efla kennaramenntun í landinu til skemmri og lengri tíma.

Það verður að segjast eins og er að ekki hafa verið tekin nein skref að öðru leyti. Jú, það er verið að ræða hér um samstarfsnetið sem er í sjálfu sér alveg prýðilegt og þokkalegt, en ekki hafa verið tekin þessi skref sem eru mikilvæg og voru það fyrsta sem alþjóðlegir sérfræðingar bentu okkur á í þeirri nefnd sem var skipuð. Strax í kjölfar hrunsins árið 2008 skipaði ég sem ráðherra nefnd alþjóðlegra sérfræðinga til að hjálpa okkur í því að meta fyrstu viðbrögð um hvernig við gætum styrkt fræðasamfélag okkar og vísindasamfélag í þáverandi aðstæðum. Nefndin skilaði síðan þegar núverandi ríkisstjórn var tekin við og það var alveg skýrt að það átti að fara í að sameina og efla háskólastofnanir en ekki síður að fara í það sem skiptir okkur máli að fara í af ákveðinni dirfsku, þ.e. að ræða uppbrot á rannsóknastofnunum. Það er engin stofnun undanskilin þegar kemur að rannsóknastofnunum, hvernig hægt er að nýta þær, samvinnu háskólastofnana, hugsanlega í eina stóra stofnun, vísindastofnun, sem ég er að reyna að draga fram að er þörf á að ræða.

Þess vegna finnst mér líka mikilvægt að draga fram ályktun okkar sjálfstæðismanna á landsfundi, að vísbendingar eru um að fjöldi stofnana og háskóla hérlendis sé of mikill miðað við stærð samfélagsins. Já, við þurfum að fara í að hagræða og gera betur. Að mínu mati nýtti núverandi ríkisstjórn sér ekki það tækifæri árið 2009 þegar það var virkilegt lag til að fara í slíkt.

Samkeppni innan lands varðandi þennan mikla fjölda getur haft hamlandi áhrif á samhæfingu og samvinnu sem tryggja mundi betur alþjóðlega samkeppnishæfni.

Já, eftir að hafa dreift kröftunum ákveðið sjáum við að það er betra eftir að við erum búin að byggja upp þekkingu að reyna að þjappa þessu saman til að standa okkur betur í alþjóðlegri samkeppni. Þó verður líka að draga það fram að undir ötulli forustu og leiðsögn rektors, sem verður hugsanlega þingmaður síðar, Kristínar Ingólfsdóttur, sem hefur af miklum krafti leitt Háskóla Íslands með því frábæra starfsfólki sem þar er innan borðs og merkilegu vísindamönnum er Háskóli Íslands kominn á lista 300 bestu háskóla í heiminum. Á síðasta ári var hann í kringum 275. sæti og hefur hækkað sig síðan þá sem er alveg ótrúlegt afrek, ekki síst miðað við efasemdaraddir ýmissa og þá úrtölumenn sem stigu fram á sviðið þegar þessi stefna var sett fram.

En það er einmitt svona sem menn eiga að hugsa. Menn eiga að hugsa djarft og menn eiga að hugsa stórt. Það er það sem ég saknaði við það að menn fóru ekki strax árið 2009 í að nýta það lag sem virkilega var til þess að stokka upp í rannsókna- og fræðakerfinu á Íslandi.

Það er líka vert að draga það fram sem er jákvætt, við verjum á Íslandi töluvert hærra hlutfalli af vergri landsframleiðslu til rannsókna og þróunar. Það er mikilvægt að hafa þetta til hliðsjónar við það að við stöndum okkur ekki nægilega vel í framlögum til háskóla. Þegar við sjáum að þetta getur komið saman og það er hægt að ýta þessu betur saman með ákveðinni uppstokkun getur kraftur okkar orðið alveg ótrúlega mikill ef menn þora að fara í þessar umbreytingar á mennta- og vísindakerfinu.

Þess vegna þarf að tryggja að fjárveitingar til rannsókna og nýsköpunar nýtist sem best og örvi verðmætasköpun. Þess vegna lagði minn flokkur áherslu á að í fyrsta lagi þurfi að samhæfa rekstrargrunn og rekstrarumhverfi ríkisstofnana sem stunda rannsóknir og þróun. Þannig má tryggja að hægt sé að flytja til verkefni og mannauð milli stofnana og svæða og hámarka með því gæði og afköst. Síðan þarf að gera breytingar á skattalöggjöf sem geri íslensku rannsóknaumhverfi kleift að standa jafnfætis erlendri samkeppni og samstarfi. Þannig geti háskólar, fyrirtæki og einstaklingar notið þess sem þeir afla á sambærilegan hátt og gerist annars staðar.

Þess vegna segi ég að í þessu samhengi þurfa menn að hafa dug í sér til að þora að tala um uppbrot og aukna samvinnu háskóla- og rannsóknastofnana þótt það þýði að menn þurfi að hugsa þvert yfir ráðuneyti. Það að hugsa þvert yfir ráðuneyti er oft mesta hindrunin í að fara í mestu og mikilvægustu úrbæturnar, t.d. á sviði menntamála.

Ég er sammála því að fella landbúnaðarháskólann og það sem honum fylgir á Hvanneyri og landbúnaðarháskólana báða undir lögin um opinbera háskóla. Það hefur líka verið dregið fram, sem við náttúrlega vitum, að báðir landbúnaðarháskólarnir, á Hólum og Hvanneyri, hafa stóran hluta nemenda sinna á framhaldsskólastigi. Það er verið að reyna að taka betur utan um það og undirstrika starfsmenntanámið sem því tengist. Ég held að það sé mikilvægt skref líka. Þess vegna styð ég þessa breytingu, en það er líka mikilvægt að fylgja eftir þeirri breytingu sem varð á sínum tíma, að allar menntastofnanirnar, m.a. landbúnaðarháskólarnir á Hvanneyri og Hólum, fari undir lög um opinbera háskóla.

Að því sögðu vil ég geta þess að samstarfið í nefndinni um þetta sem og mörg önnur mál hefur verið gott, ég þreytist ekki á að segja það. Við höfum verið upplýst um mörg mikilvæg atriði í tengslum við málið, en ég hefði óskað þess að við hefðum getað tekið þessa umræðu í víðara samhengi innan nefndarinnar. Ég vil þó um leið draga fram að ég er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefnd á vegum ráðherra sem hefur það markmið að huga að frekari breytingum á háskólastigi en líka skoðun á því hvernig ýmsar rannsóknastofnanir geti stuðlað að því að þær efli samfélag okkar enn frekar, þar með talið okkar mikilvægu háskólastofnanir í landinu.