144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í umræðuna um kostnað þjóðarbúsins af alþjóðlega bankakerfinu; hann var reyndar mjög mikill en það lítur nú út fyrir að hann hafi verið miklu minni en menn ætluðu. Við skulum ekki fara út í það. Við eigum að læra af þeirri reynslu án nokkurs einasta vafa.

Hv. þingmaður kemur hingað upp og er með frumvarp sem felur í sér hina ýmsu ferla um hvernig aðilar komi að viðfangsefninu en hann veit eins og er að það er ekki hægt að selja banka nema með ákvörðun Alþingis. Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt þá er reyndar gert ráð fyrir að hinir og þessir faglegu aðilar komi að því þegar farið verður út í slíkt ferli, ef farið verður út í það. Það er bara allt annað mál.

Hv. þingmaður studdi síðustu ríkisstjórn og segir að hann vilji ekki pólitísk afskipti af bönkunum. Af hverju studdi hann síðustu ríkisstjórn? Af hverju kom hv. þingmaður ekki upp og sagði: Heyrðu, hér eruð þið að taka SpKef, Byr og þessa risabanka — reyndar var tapið af SpKef yfir 20 milljarðar eftir bankahrunið — og þið eruð með pólitísk afskipti, þið eruð með þetta í fanginu í fjármálaráðuneytinu? Það var ekkert gagnsæi þar, virðulegur forseti, ekki frekar en þegar Landsbankinn seldi mikið af fyrirtækjum, það var ekkert gagnsæi í því. Af hverju kom hv. þingmaður ekki þá ef hann er með svo ofsalega sterka sannfæringu í þessu máli? Hann sagði ekkert. Ég man ekki eftir því í þau fjölmörgu skipti sem ég tók þessi mál upp að hv. þingmaður hefði komið og sett ofan í við þá ríkisstjórn. Það er ekki eins og þessi stofnun hafi eitthvað getað stoppað síðustu ríkisstjórn í því að hafa pólitískt afskipti af fjármálastofnunum og ekki gerðu hv. þingmenn það sem studdu hana, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar. Hann hlýtur eftir þessa fínu ræðu sem hann hélt að útskýra (Forseti hringir.) af hverju hann lét þetta viðgangast á síðasta kjörtímabili (Forseti hringir.) án þess að segja nokkurn skapaðan hlut.