144. löggjafarþing — 104. fundur,  11. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[18:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér fer sem fyrr, það sem hv. þingmaður hefur fram að færa er gagnrýni á síðasta kjörtímabil sem felur í raun og veru í sér, jafnvel ef rétt væri og engar athugasemdir væru gerðar við málflutning þingmannsins, mjög sterkar röksemdir fyrir því að viðhalda ekki bara Bankasýslunni heldur að efla hana til mikilla muna vegna þess að það þurfi enn þá sterkari múra á milli stjórnmálanna og fjárfestingarbankastarfseminnar í landinu. Ég held að það geti verið alveg gilt sjónarmið. Við þurfum alla vega að byrja á því að halda í það sem við höfum, sem er Bankasýslan. Hún tryggir að minnsta kosti þá fjarlægð að fjármálaráðherrann getur ekki hlutast til um hvað Bankasýslan aðhefst nema að gera það opinberlega, þ.e. að opinbera það fyrir tveimur veigamiklum þingnefndum og koma fram með það í opinberri umræðu. Hann getur þar með ekki haft óeðlileg, pólitískt afskipti í bakherbergjum hvorki af starfsemi fjármálafyrirtækjanna né af meðhöndlun eignarhlutanna. (Gripið fram í.) Þetta er mikilvægt að halda í og mér heyrist á hv. þingmanni að hann sé líka þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að efla þennan aðskilnað, treysta þessa múra á milli (Gripið fram í.) því að hann telji ástæðu til að ætla að þeir hafi ekki haldið nægilega vel á síðasta kjörtímabili. (GÞÞ: Svara!) Án þess að fara í efnislega umfjöllun um það þá er það sem sagt ekkert annað en frekari rökstuðningur fyrir því að gera þetta (GÞÞ: Svara!) frumvarp ekki að lögum.