145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:17]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggur fram í heild sinni. Tilefnið er mönnum ljóst og hefur verið til umræðu bæði hérlendis og erlendis síðan upplýsingar bárust úr svokölluðum Panama-skjölum og umfjöllun um þau hófst fyrr í þessum mánuði og í síðasta mánuði raunar líka.

Við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum talað fyrir því allt frá því að þessi umræða hófst á Alþingi sem var raunar í vikunni þegar hér barst í tal yfirlýsing á Facebook-síðu eiginkonu fyrrverandi forsætisráðherra um Gróu á Leiti; að Gróa á Leiti væri að ræða aðkomu hennar og þar með þeirra hjóna að aflandsfélagi. Þetta var viðbragð við viðræðum við hæstv. forsætisráðherra sem síðan voru sendar út í Kastljóssþætti þremur vikum síðar, þ.e. frá 11. mars og þar til þremur vikum síðar var það eina sem hæstv. forsætisráðherra gerði í málinu að setja saman ásamt eiginkonu sinni þessa yfirlýsingu á Facebook. Tilefnið var miklu, miklu stærra en þau viðbrögð báru með sér og raunar var tilefnið svo stórt að við finnum held ég öll til okkar ábyrgðar, við sem erum á Alþingi Íslendinga, í því að ná utan um þetta mál með þeim hætti að Íslandi sé sómi að. Það hefur því miður verið þannig undir viðlíka kringumstæðum á Íslandi að okkur hefur ekki alltaf lánast að stilla saman strengi um viðbrögð. Okkur er sérstakur vandi á höndum í þessu tilviki þegar í Panama-skjölunum er að finna alls fjóra evrópska ráðherra og þar af eru þrír á Íslandi. Án þess að hér sé tekin afstaða til umfangs þeirra mála sem þar um ræðir stendur eftir að einn af þessum þremur ráðherrum á Íslandi hefur sagt af sér ráðherraembætti, er þó enn þá alþingismaður og enn þá formaður annars stjórnarflokksins og er þar með fullur þátttakandi í stjórnmálum og því sem hér er tekið fyrir og rætt.

Eftir stendur sú furðulega staða að ráðherra skattamála sem er líka að finna í Panama-skjölunum hefur rökstutt sitt mál með þeim hætti að ef viðkomandi, hver sem það er, þar með hann sjálfur, greiðir skatta og skyldur af umsýslu sinni í aflandsfélagi sé mál viðkomandi þar með hafið yfir vafa.

Hér er um að ræða skilgreiningu og mat sem er í raun og veru einsdæmi. Það er einsdæmi að forustumaður í ríkisstjórn á Vesturlöndum sem er að glíma við mál af þessu tagi velji þessi skil í málflutningi sínum. Sú umfjöllun sem hefur verið á undanförnum árum um skattaskjól lýtur að því að skattaskjól séu í sjálfu sér skaðleg, skattaskjólin og tilvist þeirra séu í sjálfu sér skaðleg. Skattaskjól eru vettvangur skattsvika af slíkri stærðargráðu að enginn getur í raun og veru áttað sig á því umfangi. Skattaskjól eru staður þeirra sem vilja fría sig frá skyldum við sitt upprunasamfélag. Það er staður þar sem glæpastarfsemi og fé sem verður til með glæpastarfsemi, er blandað saman í leynisjóði stórfyrirtækja og auðkýfinga og þar með hvítþvegið. Þetta kemur fram á bloggsíðu Indriða H. Þorlákssonar sem er fyrrverandi ríkisskattstjóri og hefur mikla reynslu og þekkingu á þessu sviði. Þannig að þegar starfsemi sem ekki er glæpastarfsemi og snýst ekki um illa fengið fé, þegar fé af því tagi er geymt í skattaskjólum, er það skálkaskjól, ekki bara skattaskjól heldur er það skálkaskjól fyrir glæpastarfsemi. Þess vegna eru þeir sem fara með sitt fé í gegnum slík félög þátttakendur. Þess vegna er OECD að beita sér með markvissum hætti gegn allri skattaskjólastarfsemi.

Nú er það svo að fjármálaráðherrar fimm stærstu hagkerfa Evrópu; Bretlands, Þýskalands, Frakklands, Ítalíu og Spánar, hafa samþykkt að ríkin deili sín á milli upplýsingum um dulda eigendur fyrirtækja og sjóða sem skráð eru í skattaskjólum. Þetta átak er til þess að sýna fram á raunverulegar aðgerðir þessara þjóða til þess að vinna gegn því athæfi sem skattaskjól fela í sér. Samkvæmt heimildum innan breska fjármálaráðuneytisins, kemur fram á vef Vísis, mun samningur á milli ríkjanna gera ríkum einstaklingum og fyrirtækjum erfiðara fyrir að komast hjá því að greiða rétta skatta. Markmiðið er jafnvel að skoða möguleika á einhvers konar aðgerðum ef ekki gengur betur, eins og til að mynda viðskiptaþvingunum.

Tillaga sú sem hér er lögð fram og ég hef miklar væntingar til þess að fái góða og efnislega meðferð í þinginu snýst um rannsókn. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að láta fara fram rannsókn á fjölda og starfsemi félaga sem tengjast íslenskum aðilum, einstaklingum og lögaðilum, og eru í skattaskjólum sem skilgreind hafa verið af Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, og íslenskum stjórnvöldum. Í því skyni skipi forseti Alþingis rannsóknarnefnd samkvæmt 1. gr. laga nr. 68/2011. Rannsóknarnefndina skipi fjórir einstaklingar auk formanns sem hafi sérþekkingu á alþjóðaviðskiptum, fjármálum og skattamálum. Nefndin skrái öll aflandsfélög, hvar sem er í heiminum, sem tengjast eða hafa tengst íslenskum aðilum. Gefin verði út í lok nefndastarfsins sérstök aflandsfélagaskrá yfir alla þá sem í hlut eiga þar sem fram komi nöfn hlutaðeigandi félaga og einstaklinga og upplýsingar um staðsetningu skattaskjólanna. Rannsóknarnefndin miðli upplýsingum og niðurstöðum til skattyfirvalda og annarra yfirvalda eftir því sem efni standa til meðan á starfi hennar stendur.

Rannsóknarnefndin skili Alþingi skýrslu í september 2016 um þá íslensku aðila sem hún hefur orðið áskynja um en lokaskýrslu fyrir 31. desember 2016 sem innihaldi mat á umfangi aflandsstarfseminnar og áhrifa hennar á íslenskt samfélag.“

Það er auðvitað gríðarlega mikilvægur þáttur að fram fari úttekt á þessu umfangi. Og áfram, með leyfi forseta:

„Jafnframt ályktar Alþingi að fela fjármála- og efnahagsráðherra að stofna sérstakan rannsóknarhóp sem fari yfir og meti skattundanskot og aðra ólögmæta starfsemi, svo sem peningaþvætti, sem kunni að hafa átt sér stað með aflandsfélögum og byggist á upplýsingum og niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar. Rannsóknarhópurinn starfi með embættum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra á þeim forsendum sem skattrannsóknarstjóri ákveður. Fjármálaráðherra- og efnahagsráðherra sjái til þess að veitt verði fé úr ríkissjóði til þess að kosta viðbótarstarfslið sérfræðinga og annars starfsfólks sem þarf að mati ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra til starfa fyrir rannsóknarhópinn og hlutaðeigandi skattyfirvöld.

Skattrannsóknarstjóri skili skýrslu um störf og niðurstöður rannsóknarhópsins með ábendingum um úrbætur til forseta Alþingis fyrir lok ágúst 2017.“

Í greinargerðinni segir að þegar upplýsingarnar tóku að berast urðum við öll áskynja um fjölda aflandsfélaga í skattaskjólum sem tengjast íslenskum ríkisborgurum. Enn er það svo að ekki hafa allar upplýsingar í umræddum gögnum verið birtar en samt sem áður hefur þegar komið í ljós að íslenskir ríkisborgarar hafa stofnað slík félög í langtum meiri mæli en í nágrannalöndunum. Það eitt og sér er tilefni til þess að Alþingi taki utan um þetta með myndarlegum hætti. Þar er vert að nefna að hér er um að ræða upplýsingar í gagnasafni sem tengjast aðeins einni íslenskri fjármálastofnun og því má telja næsta víst að aflandsfélög í eigu Íslendinga séu langtum fleiri en fram er komið, enda störfuðu hér fleiri fjármálafyrirtæki á þeim tíma sem mest var um að stofnuð væru aflandsfélög. Skal einnig á það bent að þrotabú fjármálafyrirtækjanna sem féllu haustið 2008 kunna að veita upplýsingar um aflandsviðskipti með hlutdeild annarra fjármálafyrirtækja.

Í ljósi þess hversu viðamikið þetta hlutverk aflandsfélaga virðist hafa verið í fjárvörslu fyrir íslenska borgara er mikilvægt að íslensk stjórnvöld geri einbeitta og myndarlega atrennu að því að afla upplýsinga um fjölda slíkra félaga til að komast að þeirri vitneskju sem nauðsynleg er fyrir íslenskan almenning og íslensk stjórnvöld. Þessar upplýsingar gætu leitt til endurákvörðunar álagningar á skatta eftir því sem ástæða er til og lög heimila en mun undir öllum kringumstæðum auka vitneskju stjórnvalda og almennings um fjármálastarfsemi Íslendinga í aflandsfélögum.

Upplýsingar og vitneskju, sem rannsókn á umfangi og starfsemi aflandsfélaga tengdum Íslendingum leiðir í ljós, ber að nýta til að girða fyrir misnotkun á slíkum félögum og er því lagt til að rannsóknarhópurinn fari yfir og meti skattskil vegna fjármuna í slíkum félögum og gefi gaum að því hvort þau kunni að hafa verið nýtt til ólögmætrar starfsemi á borð við peningaþvætti sem er þá viðfangsefni héraðssaksóknara. Lagt er til að hópurinn leggi fram ábendingar og tillögur til stjórnvalda um úrbætur á þeim misfellum sem kunna að koma í ljós.

Áhrif skattaskjóla eru auðvitað með ýmsum hætti og geta orðið til þess að auka auðlegð fjármagnseigenda sem vista fé sitt þar til að skjóta sér undan sköttum sem lagðir eru á í heimalandinu, en það fé sem safnast til fjármagnseigendanna af þessum sökum vantar þar með í skattskil í heimalandinu sem verður til þess að peningarnir renna ekki til innviða eða velferðarþjónustu. Það er auðvitað hornsteinn tekjuöflunar allra upplýstra velferðarríkja að búa við gagnsæja og öfluga skattheimtu og réttláta. Skattaskjól snúast þar með ekki bara um stöðu hvers ríkis fyrir sig heldur eru þau til þess fallin að auka og viðhalda misskiptingu auðs í heiminum. Þar er verið að varðveita gróða eins og hér hefur áður verið nefnt af ýmis konar ólögmætri starfsemi sem bitnar á almenningi, svo sem vopna- og eiturlyfjasölu, svo sem vændi og mansal. Skattaskjól grafa alls staðar undan velferð og velgengni samfélaga sem sjá á eftir fé sem þar verður til inn í þessi svarthol.

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, og ýmis ríkjasamtök henni tengd, svo sem G7, G8 og G20, hafa um langt árabil tekið þátt í aðgerðum og skipulagt þær til að vinna gegn starfsemi skattaskjóla, og Ísland er þátttakandi í þeim aðgerðum, sérstökum, sértækum undirrituðum aðgerðum sem hæstv. fjármálaráðherra hefur meira að segja undirritað eigin hendi ef marka má orð hans í þingsal í gær, þ.e. átak OECD gegn starfsemi skattaskjóla.

Árið 2006 tóku Norðurlönd að vinna að samræmingu aðgerða sinna gegn skattaskjólum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Þær aðgerðir felast fyrst og fremst í tvíhliða samningi við ríkin sem hýsa skattaskjól og upplýsingagjöf varðandi eignir og skattskil. Alþjóðasamstarf Íslands í skattamálum, bæði á vettvangi OECD og Norrænu ráðherranefndarinnar og ýmissa annarra aðila, hefur leitt til þess að gerðir hafa verið fjölmargir samningar um upplýsingagjöf vegna skattamála á undanförnum árum á Íslandi.

Auðvitað er hald í þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið til að vinna gegn þessum áhrifum skattaskjóla og við þurfum að viðhalda þeim aðgerðum og auka á þær og styrkja þær. En hvorki hefur verið gerð sérstök tilraun til að komast að því hvert umfang slíkrar starfsemi var á þeim árum sem mest gekk á í fjármálalífinu hér á landi né hvert umfangið er nú eða áhrif skattaskjóla á íslenskt samfélag, en þau þarf að meta sérstaklega. Í þessari tillögu er lagt til að þetta verði gert til að hið sanna komi í ljós og gerðar verði nauðsynlegar ráðstafanir gegn því að grafið sé undan efnahag landsins og arðinum af auðlindum þess og starfi landsmanna leynt í myrkum afkimum fjármálakerfis heimsins. Markmið þingsályktunartillögunnar er því að upplýsa um umfang og áhrif skattaskjólastarfsemi á íslenskt samfélag (Forseti hringir.) og viðleitni til að koma lögum yfir þá sem hafa með rangindum haft fé af samborgurum sínum og samfélaginu öllu.