149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir og þakka sömuleiðis gott samstarf. Það er gott að geta gert gagn, líka við meirihlutaálit.

Þegar við ræðum Sjúkrahúsið á Akureyri og þær áætlanir sem þar eru uppi — vissulega er það mun minna en Landspítalinn sem staðsettur er hér sunnan heiða. En á sama tíma vil ég halda fast í það að einu sinni vorum við duglegri að flytja sjúklinga norður í land, en í dag flytjum við þá alla til Reykjavíkur. Ég er með fyrirspurn sem ég hef lagt fram til skriflegs svars um hvaða kostnaður er þar að baki, hvað það kostar að flytja alla sem þurfa á þjónustu að halda til Reykjavíkur.

Það er þrátt fyrir allt mun auðveldara að færa starfsfólk til. Ég þekki dæmi þess á Akureyri að þangað koma til að mynda krabbameinslæknar til að þjónusta okkur þar og það er nú þannig að þeim þykir gott að koma norður. Ég er alveg sannfærð um að ef við hugsum aðeins nokkur ár til baka þá var það bara ágætisdreifing eins og var. Hvað það var sem gerðist veit ég ekki. En ég vil halda því fram að sú þróun sem er núna, og við erum að setja stefnu mörg ár fram í tímann, að ef við ætlum í alvörunni að halda því fram að ætla alltaf að senda alla til Reykjavíkur þá langar mig til að hugsa það aðeins upp á nýtt og athuga hvort við séum á réttri leið.