149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir. Það er gott að koma þessu rétt frá sér.

Það er rétt að í inngangsorðunum fjalla ég um einkaaðila, einkarekstur á grunni útboða, eins og við gerum bara í annarri starfsemi þar sem við þurfum að gæta að hverri krónu.

Ég lít þannig á það að ef við ætlum að setja allt saman inn á það sem ég vil oft kalla ofhlaðinn Landspítala erum við í raun ekki að hugsa af nógu mikilli hagkvæmni um þessa hluti. Biðlistar eru eitt og biðlistar á biðlista eru annað.

Ég er aðallega að hugsa um þá fjármuni sem við erum í rauninni að sóa með því að setja sjúklinga inn í dýrasta úrræði landsins. Mér finnst það vera merkilegt í sjálfu sér að það sé stefnan að halda því áfram. Við erum með á hliðarlínunni Klíníkina sem hefur verið í umræðunni vegna liðskiptaaðgerða og við þekkjum umræðuna um að læknar fari með sjúklingum sínum til útlanda til að gera ákveðnar aðgerðir. Við þekkjum umræðuna um Krabbameinsfélagið sem allt í einu sér ekki um eftirfylgni krabbameinssjúklinga. Og það má segja að Landspítalinn bað nú ekki einu sinni um það, heldur var það heilbrigðisráðuneytið sem sagði að svona ætti þetta að vera.

Við getum líka nefnt sjúklinga með geðraskanir og fíknisjúkdóma. Þessir sjúklingar hefðu betur verið settir innan SÁÁ. Þannig að af mörgu er að taka. Við erum að kasta fjármunum. Við erum að glata fjármunum.